Deiliskipulag

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search

Deiliskipulag er skipulagsáætlun fyrir afmarkað svæði eða reit innan sveitarfélags. Það er lægsta og ítarlegasta stig skipulags í íslenska skipulagskerfinu. Deiliskipulag skal gera fyrir einstök svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar og skal jafnan miða við að það taki til svæða sem mynda heildstæða einingu. Við gerð deiliskipulags skal byggt á stefnu aðalskipulags og hún útfærð fyrir viðkomandi svæði eða reit.

Framsetning deiliskipulags[breyta | breyta frumkóða]

Í deiliskipulagi eru teknar ákvarðanir um eftirtalda þætti:

  • lóðir,
  • lóðanotkun,
  • byggingarreiti,
  • byggðamynstur, þ.m.t. nýtingarhlutfall,
  • útlit mannvirkja og form eftir því sem við á og
  • aðrar skipulagsforsendur sem þurfa að liggja fyrir vegna byggingar- og framkvæmdaleyfa.

Deiliskipulag skal setja fram á skipulagsuppdrætti ásamt skipulagsgreinargerð. Í greinargerð deiliskipulags er forsendum þess lýst og sett fram stefna deiliskipulagsins og umhverfismat áætlunarinnar, þegar við á. Í greinargerðinni skal m.a. setja skipulagsskilmála í samræmi við stefnuna. Á skipulagsuppdrætti deiliskipulags skal setja fram þá stefnu sem kynnt er í skipulagsgreinargerð fyrir skipulagssvæðið að svo miklu leyti sem það getur átt við.[1]

Sveitarstjórn ber ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags.Landeigandi eða framkvæmdaraðili getur óskað eftir því við sveitarstjórn að gerð sé tillaga að deiliskipulagi eða breytingu á deiliskipulagi á sinn kostnað.[2]

Þróunarsvæði[breyta | breyta frumkóða]

Við deiliskipulagsgerð í þegar byggðu hverfi getur sveitarfélag ákveðið að skilgreina afmarkað svæði sem þróunarsvæði þar sem vinna skal hefðbundið deiliskipulag. Í slíkri áætlun skal tilgreina framkvæmdatíma áætlunarinnar sem skal vera a.m.k. fimm ár en ekki lengri en fimmtán ár. Framkvæmdatími áætlunarinnar hefst við gildistöku áætlunarinnar en ef hann er ekki tilgreindur skal miða við fimmtán ár.[1]

Hverfisskipulag[breyta | breyta frumkóða]

Þegar unnið er deiliskipulag í þegar byggðu hverfi er unnt að gera svo kallað hverfisskipulag. Þegar unnið er að slíku hverfisskipulagi er heimilt að víkja frá kröfum um framsetningu sem gerðar eru til deiliskipulagsáætlana í nýrri byggð og leggja frekar áherslu á almennar reglur um yfirbragð byggðarinnar auk almennra rammaskilmála. Lagt skal mat á varðveislugildi svipmóts byggðar og einstakra bygginga sem fyrir eru, með gerð húsakönnunar. Reglur um málsmeðferð deiliskipulags gilda um hverfisskipulag eftir því sem við á.[1]

Rammaskipulag[breyta | breyta frumkóða]

Áður en kemur að gerð deiliskipulags fyrir stærri heildstæð svæði grípa sveitarfélög til þess að gera rammaskipulag fyrir svæðið til að sýna að hluta úfærslu forsenda aðalskipulags en ekki með sömu nákvæmni og formfestu sem gildir um deiliskipulag. Rammaskipulagið er þá ráðgefandi um gerð deiliskipulags sem kann að vera útfært í einum eða fleiri hlutum. Dæmi um svæði þar sem gert hefur verið rammaskipulag áður en kemur að gerð deiliskipulagsáætlana eru: Ártúnshöfði og Skerjabyggð.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  1. 1,0 1,1 1,2 Skipulagslög 123/2010, 37. gr.[1]
  2. Skipulagslög 123/2010, 38. gr.[2]