Deccan-flæðibasaltið

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Deccan-flæðibasaltið nálægt Mumbai

Deccan-flæðibasaltið (eða Deccan-tröppurnar) er stórt flæðibasaltsvæði sem staðsett er á Deccan-sléttunni við mitt-vestanvert Indland (á milli 17°-24°N, 73°-74°A) og er eitt af stærstu eldvirknisvæðum jarðar. Svæðið er samsett úr fjölda hraunlaga sem eru samanlagt yfir 2000 m þykk og ná yfir 500.000 km2 svæði. Rúmmál hraunanna er um 512.000 km3. Tröppunafnið Í Deccan-tröppurnar (Deccan traps) er komið úr sænsku og vísar til þess að hraunlögin mynda klettabelti sem eru eins og þrep eða tröppur í fjallahlíðum og landslagi svæðisins.

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Deccan-svæðið er hér sýnt sem fjólublár blettur við mitt Indland

Deccan-basaltið myndaðist á tímabili mikillar eldvirkni fyrir 60 – 68 milljónum ára í lok Krítartímabilsins. Mesta eldvirknin var fyrir 65 milljónum ára nálægt því svæði þar sem borgin Mumbai er í dag. Ákafasta eldvirknitímabilið hefur hugsanlega varað í tæplega 30 þúsund ár.

Upprunalega svæðið sem hraunlögin þöktu er áætlað hafa verið um 1,5 milljónir km2 eða um helmingur Indlands. Deccan-basaltsvæðið hefur minnkað að umfangi vegna rofs og flekahreyfinga. Núverandi kannað svæði er um 512.000 km2.

Áhrifa eldgosa á loftslag og lífríki[breyta | breyta frumkóða]

Losun gosgufa út í andrúmsloftið, þá sérstaklega brennisteinsdíoxíðs á meðan á eldgosunum stóð olli loftlagsbreytingum og líklegt að hitastig hafi fallið um 2°C.

Vegna stærðar og umfangs eldvirkninnar á svæðinu töldu vísindamenn að gastegundirnar sem mynduðust í gosunum höfðu haft áhrif á fjöldaútdauðann á mörkum Krítar og Tertíer sem meðal annars þurrkaði út risaeðlur af yfirborði jarðar. Skyndileg kólnun af völdum brennisteinsgastegunda sem losnuðu við eldgosin gæti hafa átt talsverðan þátt í fjöldaútdauðanum. Hins vegar er samstaða um það í vísindasamfélaginu að fjöldaútdauðinn hafi orðið af völdum árekstar loftsteins eða halastjörnu við jörðina og er Chicxulub-gígurinn í Mið-Ameríku talin vera gígurinn sem myndaðist við áreksturinn.

Sambærileg flæðibasaltsvæði og Deccan svæðið eru til víðar um hnöttin, t.d Síberíuflæðibasaltið (Siberian Traps).

  Þessi landafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.