Danskur ríkisdalur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Danskur spesíudalur frá 1777 merktur Kristjáni VII 28,72 g að þyngd
Kúrantdalur (pappírsmynt) frá Danska Kúrantbankanum 1794
Dúkari frá 1665. Dúkarar voru gullmyntir, spesíudalir silfurmynt og skildingar úr kopar.

Ríkisdalur var gjaldmiðill í Danmörku þar til komið var á samnorrænu myntbandalagi árið 1875 og ríkin tóku upp krónu sem gjaldmiðil. Í Danmörku var myntin köllun ríkisbankadalur eða frá því að danski ríkisdalurinn var endurreistur eftir hrunið mikla árin 1807-1815. Skömmu fyrir myntbreytinguna 1875 var danski ríkisbankadalurinn 96 skildingar en sænski ríkisdalurinn 48 skildingar. Á 18. öld voru í Danaveldi utan þýsku hertogadæmanna aðallega tvær gerðir ríkisdala, annars vegar kúrantdalur sem var pappírsmynt og hins vegar spesía sem var mæld í silfri. Kúrantdalur var pappírsmynt gefinn út af konunglega Kúrantbankanum og var hin venjulega greiðslumynt í Danaveldi til ársins 1815. Spesían var silfurmynt sem var mæld þannig að hver ríkisdalur var 27 grömm af silfri. Á Íslandi var opinbert gangverð milli kúrantdala og spesíu frá árinu 1753 þannig að einn spesíudalur var 12,5 % verðmætari en kúrantdalur. Markaðsverð spesíudala var ennþá hærra í Danmörku, það var 32 % hærra en kúrantdalur árið 1760 og 42% hærra árið 1787 og féll kúrantdalurinn stöðugt í verði og hríðféll svo í hruninu mikla 1807-1815. Við myntbreytingu í Danmörku árið 1816 bauðst fólki að skipta á einum ríkisbankadal og sex kúrantdölum. Spesíur voru í umferð á 19. öld en ekki notaðar í venjulegum viðskiptum heldur frekar til gjafa og sem minnispeningur.[1]

1 ríkisdalur (rigsdaler) = 6 mörk (marck) = 96 skildinga (skilling). Sá gjaldmiðill var kjarninn í tveimur peningakerfum - annarsvegar specie-kerfinu og kúrant-kerfinu. Specie-kerfið byggðist upp á því að 1 skilling jafngilti 263mg (1/1000 úr unsu) af fínhreinsuðu silfri, og hélst sú skilgreining skillings út allt tímabilið. Eingöngu lítil fjárupphæð var skilgreind í specie-kerfinu, en kúrant-kerfið var notað dags-daglega í verðlagningu og vinnulaunum.

Heimildir benda til þess að specie kerfið hafi verið bundið við þýsk Reichsthaler, en ekki er ljóst hve lengi slík binding var í gildi.

Kúrant-kerfið[breyta | breyta frumkóða]

Kerfið dregur nafn sitt af enska orðinu currency, en hugtakið var tekið í notkun í Bretlandi til þess að lýsa því hvernig gjaldmiðill gat tekið verðbreytingum eftir stöðu viðskipta í landinu, í stað þess að vera föst skilgreind upphæð. Líkingin var við það hvernig í stórum ám eins og Thames ánni í London var mismunandi mikið flæði eftir því hvar í ánni menn voru staðsettir, eða að gjaldmiðlar hefðu mismunandi verðgildi eftir flæði hvers tíma.

Í upphafi hafði kúrant-kerfið staðlaða mynt þar sem að hver skilling innihélt 215mg (3/4 úr specie-skillingi) af fínhreinsuðu silfri. Frá og með árinu 1737 voru gefnir út peningaseðlar í þessu gjaldkerfi sem að voru loforð um tiltekið magn silfurs gegn framvísun í banka, en frá og með árunum 1745-1747 var ekki lengur hægt að krefja bankanna um silfrið sem peningaseðlarnir vísuðu á, og árið 1757 var tengslum bréfseðlanna við silfur rofið. Frá og með árinu 1788 var nánast engin silfurmynt slegin í kúrant-kerfinu, og upp frá því fór kerfið að flæða eins og aðrir óverðtryggðir gjaldmiðlar þess tíma.

Í kúrant kerfinu voru önnur hlutföll á verði peninga, og þá kom króna fyrst til sögunnar. 1 krone = 1 sletdaler = 4 marck. 1 daler = 2 marck. 1 rigsort = 1½ marck = 24 skilling. 1 marck = 16 skilling.

Dæmi um verðlag[breyta | breyta frumkóða]

Hið Íslenska Verslunarfélag verslaði alls með um í kringum 20.000rd árlega, en félagið var stofnað með hlutafé upp á 100.000rd. Árslaun héraðslæknis voru almennt á bilinu 600rd til 1500rd eftir héröðum, en landlæknir var með í kringum 2000 ríkisdali í laun eftir að embættið var sett á laggirnar 18. mars 1760

Árið 1694 var arður af verslun í Vestmannaeyjum talin vera 1494rd, en skuldir voru almennt fremur litlar á einokunarárunum. Árið 1755 voru útistandandi verslunarskuldir í þar um 1700rd, en eftir 1770 var mjög slæmt hallæri á fiskimiðunum sem að varð til þess að við lok einokunartímabilsins 1783 voru skuldir í Vestmannaeyjum samtals 5892rd, á móti eftirstöðvum jarðarbókartekna 1138rd, og voru fyrstu árin eftir lok einokunarverslunarinnar mjög erfið.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Hvers virði var gamli ríkisdalurinn í íslenskum krónum? – Var munur á íslenskum og dönskum ríkisdal?“. Vísindavefurinn.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]