Danska kvennalandsliðið í knattspyrnu
Gælunafn | De rød-hvide (Rauðar og hvítar) | ||
---|---|---|---|
Íþróttasamband | Danska knattspyrnusambandið | ||
Álfusamband | UEFA | ||
Þjálfari | Andrée Jeglertz | ||
Fyrirliði | Pernille Harder | ||
Most caps | Katrine Pedersen (210) | ||
Markahæstur | Pernille Harder (75) | ||
FIFA sæti Hæst Lægst | 12 (13. desember 2024) 6 (mars-júní 2007; mars-júní 2009) 20 (júní-ágúst 2016) | ||
| |||
Fyrsti landsleikur | |||
1-0 á móti ![]() | |||
Stærsti sigur | |||
15-0 á móti ![]() | |||
Mesta tap | |||
0-7 á móti ![]() |
Danska kvennalandsliðið í knattspyrnu (danska: Danmarks kvindefodboldlandshold) er fulltrúi Danmerkur á alþjóðlegum vettvangi. Liðið hefur best náð öðru sæti í Evrópukeppninni 2017 og ítrekað komist í úrslitakeppni HM og ÓL.
Saga
[breyta | breyta frumkóða]Fyrstu óopinberu heimsmeistarakeppnir kvenna í knattspyrnu fóru fram á Ítalíu árið 1970 og í Mexíkó árið eftir. Keppnir þessar hafa aldrei verið viðurkenndar af FIFA og teljast leikirnir á þeim því ekki formlega fullgildir landsleikir. Danir sendu hins vegar sterkt lið til keppni og fóru með sigur af hólmi í bæði skiptin. Skipulögð kvennaknattspyrna hafði komið fram í Danmörku á sjöunda áratugnum þar sem félagið BK Femina frá Gladsaxe var fremst meðal jafningja.
Fyrsti formlegi landsleikurinn var 1:0 sigur á Svíum árið 1974 og fimm árum síðar urðu Danir sigurvegarar á óopinberu Evrópumeistaramóti sem fram fór á Ítalíu. Þessir óopinberu meistaratitlar eru enn í dag þeir einu sem danska liðið hefur unnið á alþjóðavettvangi.
Fyrstu formlegu stórmótin
[breyta | breyta frumkóða]Fyrsta formlega Evrópumótið fór fram árið 1984 þar sem Danir féllu úr leik í undanúrslitum. Keppnin var framan af haldin annað hvort ár og mistókst Dönum að komast í fjögurra liða úrslitakeppnina í tvö næstu skiptin. En árin 1991 og 1993, fyrst á heimavelli og svo á Ítalíu, vann liðið til bronsverðlauna.
FIFA efndi til fyrstu heimsmeistarakeppni kvenna árið 1991 í Kína. Danska liðið féll úr leik í fjórðungsúrslitum og það sama varð niðurstaðan í Svíþjóð fjórum árum síðar. Þetta telst besti árangur Dana á HM, en í þau þrjú önnur skipti sem liðið hefur komist í úrslitakeppnina, árin 1999, 2007 og 2023 hefur það aldrei komist lengra en í 16-liða úrslit.
Danir kepptu í fyrsta og eina skiptið á ÓL í knattspyrnu í Atlanta 1996 en töpuðu öllum þremur leikjum sínum.
Silfur í Evrópu
[breyta | breyta frumkóða]Dönum mistókst að komast í úrslitakeppni EM árið 1997 en upp frá því hefur það verið fastur gestur í lokahluta keppninnar. Árin 2001 og 2013 komust Danir í undanúrslitin en töpuðu í fyrra skiptið gegn Svíum en í það seinna gegn Noregi í framlengdri viðureign.
Keppnin árið 2017 fór fram í Hollandi þar sem Danir slógu margfalda Evrópumeistara Þjóðverja úr leik í fjórðungsúrslitum, unnu svo Austurríkismenn 3:0 í vítaspyrnukeppni í undanúrslitum en máttu sætta sig við 4:2 tap gegn heimakonum í úrslitaleiknum. Silfurverðlaunin í Hollandi teljast þó besti árangur Dana í opinberlega viðurkenndum mótum til þessa dag.