Claire Bretécher
Claire Bretécher (1940-2020) var áhrifamikill franskur myndasöguhöfundur. Hún fæddist í Nantes í Frakklandi. Myndasögur hennar fjalla yfirleitt með gamansömum hætti um fjölskyldulíf, samskipti kynjanna og hlutskipti kvenna. Bretécher var oft kennd við femínisma, en sjálf gerði hún yfirleitt lítið úr því. Á sjöunda og áttunda áratuginum varð hún fyrst kvenmyndasöguhöfunda til að hasla sér völl í fremstu röð í myndasögugerð í Frakklandi og starfaði þá fyrir vinsælustu fransk-belgísku myndasögutímaritin eins og Sval (f. Spirou) og Tintin. Meðal þekktustu verka Bretécher eru myndasögurnar um viðskotaillu táningsstúlkuna Agrippínu (f. Agrippine) sem Bretécher gaf sjálf út á árunum 1988-2009 og nutu mikilla vinsælda víðs vegar um Evrópu. Eftir þeim sögum var framleidd teiknimyndasería fyrir sjónvarp á vegum Canal+ á árinu 2001.
Ein myndasaga eftir Bretécher, Beðið eftir kaffinu, kom út á vegum bókaútgáfunnar Litlu gulu hænunnar á árinu 1988 í íslenskri þýðingu Jakob Andersen. Skrýtlurnar í bókinni birtust upprunalega í myndasögutímaritinu Pilote á árunum 1971-1973 og komu út í bókarformi árið 1973 undir heitinu Salades de saison. Íslenska útgáfan styðst þó við danskar útgáfur Interpresse frá árinu 1983 (Mens vi venter på Café au Lait og Mixet salat).
Tenglar
[breyta | breyta frumkóða]https://www.lambiek.net/artists/b/bretecher.htm Sótt 3.5.2022