Cixi keisaraekkja

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Mynd af Cixi.

Cixi keisaraekkja (29. nóvember 183515. nóvember 1908) var einráð í Kína frá 1861 til 1908. Hún var af ætt Manchu Yehe Nara.

Cixi var valin sem frilla Xianfeng-keisarans sem ung kona og eignaðist með honum soninn Zaichun árið 1866. Eftir dauða Xianfeng-keisarans árið 1861 varð sonurinn Tongzhi-keisarinn og Cixi varð keisaraekkja. Cixi framdi valdarán gegn hópi ríkisstjóra sem keisarinn sálugi hafði útnefnt og tók sjálf við ríkisstjórnartaumunum ásamt keisaraekkjunni Ci'an. Cixi herti stjórntökin með því að gera frænda sinn að Guanxu-keisaranum eftir dauða Tongzhi-keisarans árið 1875, þvert gegn hefðbundinni erfðaröð Tjingveldisins. Cixi neitaði að tileinka sér vestræna stjórnarhætti en studdi þó ýmsar tækni- og hernaðarumbætur. Hún var samþykk innihaldi Hundraðdagaumbótanna árið 1898 en mótmælti því hversu hratt átti að koma þeim í framkvæmd þar sem hún taldi þær skaðlegar styrk konungsvaldsins. Eftir að Guangxu-keisarinn reyndi að koma henni fyrir kattarnef setti Cixi hann í stofufangelsi fyrir að styðja við bakið á róttækustu umbótasinnunum. Cixi virðist hafa óttast að umbæturnar yrðu til þess að gera Kína berskjaldað fyrir áhrifum Japana. Eftir að Boxarauppreisnin leiddi til innrásar átta þjóða bandalags í Kína lýsti Cixi í fyrstu yfir stuðningi við boxarana fyrir að standa með Tjingveldinu og gegn útlendingum. Ósigur Kínverja gegn innrásarhernum sem fylgdi var mikil auðmýking fyrir Cixi. Þegar hún sneri aftur til Peking frá Xi-an, þangað sem hún hafði flutt keisarann, vingaðist hún loks við útlendinga í höfuðborginni og hóf ýmsar kerfisumbætur sem áttu að gera Kína að þingbundnu konungsveldi. Eftir að Cixi og Guanxu-keisarinn létust bæði árið 1908 var hirðin í höndum íhaldssamra Mansjúmanna, nýi keisarinn var barnungur og alþýðan óstýrilát og óánægð.

Hefð er fyrir því meðal sagnfræðinga bæði í Kína og erlendis að lýsa Cixi sem harðstjóra sem bæri ábyrgð á hruni Tjingveldisins. Aðrir hafa haldið því fram að andstæðingar hennar meðal umbótasinna hafi klínt á henni sök fyrir vandamál sem hún hafði ekki stjórn á. Einnig hafa þeir haldið því fram að hún hafi beitt valdi sínu til að koma í veg fyrir stjórnmálaóreiðu, hafi ekki verið grimmari en aðrir samtímaleiðtogar og hafi staðið sig vel í að koma á umbótum undir lok ævi sinnar þótt hún hafi verið treg til.[1]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Chung, Sue Fawn (1979). "The Much Maligned Empress Dowager: A Revisionist Study of the Empress Dowager Tz'u-Hsi (1835–1908)". Modern Asian Studies. 13 (2): 177–196. Bls. 177-196.
  Þetta æviágrip er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.