Citizens United gegn kosninganefnd alríkisins

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search

Dómur hæstaréttar um fjármögnun kosningaauglýsinga[breyta | breyta frumkóða]

Dómsúrskurðurinn, sem markaði þáttaskil í sögu hæstaréttar Bandaríkjanna, kveður á um að ekki sé hægt að styðjast við fyrsta ákvæði stjórnarskrárinnar til að takmarka fjárveitingar einkafyrirtækja til framleiðslu á óháðu pólitísku myndefni sem gert er í tilefni forkosninga til forsetaembættis Bandaríkjanna. Dæmt var samtökunum Citizen United í vil og var upphafið að málinu deilur um hvort samtökunum, sem starfa án ávinnings, væri heimilt að sýna kvikmynd sem ætlað var að gagnrýna Hillary Clinton og jafnframt hvort þeim væri heimilt að auglýsa myndina með andlit Hillary Clinton í forgrunni. Deilan snérist líka um hvort aðgerðir samtakana væru andstæðar við „Lög um fjárveitingar í kosningum“, ályktun sem gerð var árið 2002 (einnig þekkt sem the McCain-Feingold Act).

Forsaga[breyta | breyta frumkóða]

Citizens United, samtök íhaldssamra sem starfa án ávinnings, freistuðu þess að kynna kvikmynd sína, Hillary: The Movie, með sjónvarpsauglýsingum og sýna í framhaldinu á DirecTV en ályktun um fjárveitingar í kosningum sem samþykkt var árið 2002 kom í veg fyrir það. Kvikmyndin var í áróðursskyni um Hillary Clinton þáverandi öldungadeildarþingmann.[1] Ályktunin bannar fyrirtækjum og félagasamtökum að nota fjármagn sitt í áróðursskyni gegn einstaka frambjóðendum og einnig að veita fjárstyrki til einstaklinga í kosningabaráttu ef þeim er ætlað að rægja andstæðinga á opinberum vettvangi. Í janúar 2008 dæmdi héraðsdómurinn í Columbia fylki að auglýsingarnar brytu gegn ákvæðum ályktunarinnar og bönnuðu enn fremur að atkvæðasmölun færi fram 30 dögum fyrir forkosningar. Rök samtakanna voru þau að kvikmyndin væri byggð á staðreyndum en dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að gerð myndarinnar hafði þann eina tilgang að gera lítið úr trúverðugleika Hillary Clinton.[2]

Í september 2009 var málið tekið fyrir í hæstarétti Bandaríkjanna, þar sem fimm af níu dómurum töldu að breytingar á kosningalögum sem bönnuðu fjárveitingar frá óháðum fyrirtækjum og samtökum væru ekki réttmæt og ættu ekki að ná yfir tilfellið sem varðaði kvikmyndina um Hillary Clinton. Ástæðan fyrir þeim úrskurði var að hluta til sú að slíkar takmarkanir myndu heimila þinginu að bæla niður pólitíska umræðu í fjölmiðlum, hvort sem það væri á prenti eða í ljósvakamiðlum, en slíkt myndi ganga gegn fyrsta ákvæði stjórnarskrárinnar.[3]

Viðbrögð[breyta | breyta frumkóða]

Úrskurðurinn hefur vakið mikla athygli á og meðal annars vegna ummæla Baracks Obama í stefnuræðu hans í janúar 2010: „Með fullri virðingu fyrir skiptingu valdsins, þá er það mín sannfæring að dómur hæstaréttar, sem hnekkti aldagömlum lögum, muni opna flóðgáttir fjármagns til kosningaframboða sem eingöngu myndi þjóna sérsökum hagsmunum einkaaðila og þar með talið erlendra fyrirtækja og gefa þessum óháðu hagsmunaðilum tækifæri til að eyða án nokkurra takmarka fjármunum í okkar kosningum. Mér hugnast ekki að bandarískar kosningar séu fjármagnaðar af landsins valdamestu hagsmunaaðilum eða það sem verra væri, af erlendum aðilum“.[4]

Samuel Alito hæstaréttadómari sást hrista höfuð sitt undir ræðu forsetans og segja til skiptis „ekki satt“ eða „það er lygi“. Hvað hann í raun sagði er erfitt að fá staðfest, því það virðist fara eftir því hver verður fyrir svörum.[5]

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Barnes, Robert (2009-03-15). „'Hillary: The Movie' to Get Supreme Court Screening“. The Washington Post. Sótt 29. október 2010
  2. ^ „Memorandum Opinion“ (PDF). Citizens United v. Federal Elections Commission. District Court for the District of Columbia. 15. janúar 2008
  3. a b Syllabus and Majority opinion at the Cornell University Law School Supreme Court Collection site
  4. „Obama Criticizes Campaign Finance Ruling“. CNN Political Ticker. Turner Broadcasting System, Inc.. 2010-01-20. Sótt 29. oktober 2010.
  5. http://voices.washingtonpost.com/44/2010/01/alito-mouths-not-true-at-obama.html