Bólstaðarhlíð
Bólstaðarhlíð er bær í Austur-Húnavatnssýslu, gamalt höfuðból, kirkjustaður og um tíma prestssetur. Bærinn stendur í mynni Svartárdals, þar sem hann sveigir til vesturs yfir í Langadal, og telja margir að þar sé Ævarsskarð hið forna, sem talað er um í Landnámabók. Bólstaðarhlíð er ýmist talin heyra til Svartárdal eða Langadal. Þar er veðursælt og snjólétt og þar var lengi stærsta tún í sýslunni.
Hringvegurinn liggur framhjá Bólstaðarhlíð og upp á Vatnsskarð um Bólstaðarhlíðarbrekku, öðru nafni Botnastaðabrekku. í landi Bólstaðarhlíðar er félagsheimilið Húnaver.
Kirkja hefur verið í Bólstaðarhlíð frá fornu fari og var henni áður þjónað frá Bergsstöðum en árið 1970 var Bólstaðarhlíðarprestakall stofnað og prestsbústaður reistur í landi Bólstaðarhlíðar. Undir prestakallið heyrðu kirkjur á Bergsstöðum í Svartárdal, Auðkúlu, Svínavatni og Holtastöðum í Langadal auk Bólstaðarhlíðarkirkju. Prestakallið var lagt niður 2001 og er kirkjunni nú þjónað af Skagastrandarpresti. Núverandi kirkja var vígð árið 1889.
Í Bólstaðarhlíð bjó sama ættin, Bólstaðarhlíðarætt eldri, í um 300 ár, frá 1528-1825. Síðastur af þeirri ætt til að búa í Bólstaðarhlð var séra Björn Jónsson (1749-1825). Hann átti níu dætur og var mjög kynsæll og kallast afkomendur hans Bólstaðarhlíðarætt yngri.