Flosi Þórðarson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Brennu-Flosi)

Flosi Þórðarson (10. og 11. öld), einnig þekktur sem Brennu-Flosi, eftir að hann fór að Njáli á Bergþórshvoli og brenndi hann inni ásamt sonum sínum öllum.

Flosi var mikill höfðingi og bjó á Svínafelli í Öræfum. Kona hans hét Steinvör og var laundóttir Síðu-Halls. Flosi var sonurr Þórðar Freysgoða Össurarsonar og Ingunnar dóttur Þóris á Espihóli Hámundarsonar heljarskinns. Hálfbróðir hans samfeðra var Starkaður Þórðarson, sem var faðir Hildigunnar Starkaðardóttur, sem fyrr var gift Höskuldi Hvítanessgoða og síðar Kára Sölmundarsyni. Eftir að Njálssynir, Kári og Mörður Valgarðsson (Lyga-Mörður) höfðu drepið Höskuld Hvítanessgoða að áeggjan Marðar, kom Hildigunnur því svo fyrir að Flosi varð að hefna vígsins. Æxluðust málin þannig að Flosi safnaði geysimiklu liði og fór að Bergþórshvoli að nóttu til síðsumars árið 1011 og bar eld að bænum. Bauð hann útgöngu konum öllum og vinnuhjúum. Bergþóra, kona Njáls, vildi ekki þiggja að ganga úr eldinum. Brann þarna inni mikill fjöldi fólks, en Kári Sölmundarson slapp úr eldinum einn manna og hefndi grimmilega fóstbræðra sinna og Þórðar sonar síns, sem fórst með afa sínum og ömmu í brennunni.

Síðar sættust þeir heilum sáttum, Kári og Flosi og var hápunktur sættanna þegar Kári gekk að eiga Hildigunni Starkaðardóttur. Flosi fór í hárri elli í verslunarferð til Noregs og varð seinn fyrir til baka. Menn sögðu honum að skip hans væri ekki gott til úthafssiglinga, en hann taldi það hæfa sér, því hann væri gamall og fúinn líka. Lét hann svo í haf og fórst skipið í hafi með öllu sem á var.

Kolbeinn Flosason lögsögumaður er oftast talinn sonur Flosa og konu hans, Steinvarar, dóttur Síðu-Halls.