Brúðarförin í Harðangri

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Brúðarförin í Harðangri

Brúðarförin í Harðangri er málverk frá 1848 málað af Hans Gude og Adolph Tidemand. Málverkið er eitt þekktasta málverk í Noregi. Gude málaði landslagið og Tidemand brúðarförina. Málverkið er 93 x 130 sm og er varðveitt í þjóðminjasafninu í Osló. Það er talið afar gott dæmi um rómantíska þjóðernishyggju í Noregi.

Málverkið er af brúðarfylgd sem siglir í bátum yfir fjörð eftir hjónavígslu. Brúðhjónin sitja í fremsta bátnum og brúðkaupsgestir í bátum fyrir aftan. Brúðhjónin eru klædd norskum þjóðbúningum og brúðurin ber brúðarkrónu og annað hefðbundið skart. Flestir gestanna eru í þjóðbúningum. Landslagið sýnir sumardag og spegilsléttan fjörð umlukinn háum fjöllum með skógivöxnum hlíðum. Í bakgrunni sést í stafkirkju frá miðöldum.

Málverkið var í bakgrunni í menningarviðburðum í Christiania leikhúsinu árið 1849. Tidemand og Gude máluðu bakgrunninn á striga og á leiksviðinu miðju var komið fyrir báti með fólki sem var klætt í þjóðbúninga eins líkt málverkinu og mögulegt var. Dagskráin byrjaði þá með söng og hljóðfæraleik. Þar var flutt kvæði Andreas Munchs «Der aander en tindrende Sommerluft varmt over Hardangerfjords Vande» en það var sungið var undir tónlist eftir Halfdan Kjerulf. Kvæði Munch fjallar um málverkið. Matthías Jochumsson þýddi kvæði Munch svohljóðandi:

Það angar sumar og sólskinsblær
á sæflötinn Harðangurs stranda,
en himinfjöllin svo heiðblá-tær
í hátignarveldi standa.
Það glampar á breiða og hágræna hlíð,
sitt helgidags skart ber sveitin fríð,
því heim á blánandi bárum
fer brúðför á léttum árum.


Í stafninum situr brúðurin blíð,
eins björt eins og sveitin og stundin,
með kórónu á höfði sem kóngsdóttir fríð
og klædd eins og fornaldarsprundin,
og brúðguminn hlær við með hattinn í mund,
nú hefir hana náð sinni óskastund,
hann lítur í kvennaugans ljóma
sitt líf eins og brúðför tóma.


Það dunar um loptið og fjörð og fell.
af fiðlum og söngraddahljómi,
og skeiðinni svarar og skotanna hvell
hver skógshlíð með fagnaðar-ómi.
Við brúðmeyjar gaspra menn gamanhjal,
þó gleymir ei sá, er skenkja skal,
að hressa við hjörtun sem tungu,
til heiðurs við brúðhjónin ungu.


Svo svífa menn áfram með sönglist og spil
um sævarins spegilinn skýra,
það smáfjölga bátar um blásalar hyl
með brúðfarargestina dýra.
Það blánar und hlíð og það blankar á tind,
af björkunum angar og skrúðgrænni lind,
en klukkurnar kveðja með hljómi
frá kirkjunnar heilaga dómi!


Eitt augnablik gripið með láði og lög, —
sjá, löðrið sem árarnar mynda! —
nam fegurðar-íþróttin undrunarhög
í yndælli skuggsjá binda.
Og hátt skal hún sett fyrir hvers manns sjón,
svo heimurinn sjái vort tigna frón,
og fái þá fegurð að dreyma,
sem firðirnir norsku geyma!

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]