Blanche Dumoulin

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Blanche Dumoulin (8. janúar 18959. febrúar 1975) var belgískur myndasöguhöfundur sem átti ásamt eiginmanni sínum Rob-Vel þátt í þróun myndasöguhetjunnar Svals.

Ævi og störf[breyta | breyta frumkóða]

Blanche Dumoulin fæddist og ólst upp í Liège þar sem hún lagði stund á myndlistarnám. Hún fluttist til Sydney í Ástralíu snemma á fjórða áratugnum og starfaði þar sem barnfóstra. Hún sneri ekki aftur til Evrópu fyrr en árið 1937, staðreynd sem talin er skipta máli varðandi upphafssögu persónunnar Svals.

Eftir komuna aftur til Belgíu hélt Dumoulin fljótlega til Parísar þar sem hún giftist teiknaranum Rob-Vel og vann að ýmsum verkefnum með honum og gömlum skólabróður sínum Luc Lafnet. Hún var jafnframt nokkurs konar umboðsmaður þeirra beggja.

Uppeldismóðir Svals[breyta | breyta frumkóða]

Þau hjónin sköpuðu árið 1937 saman myndasöguhetjuna Toto sem var titilpersóna í samnefndu tímariti. Dumoulin samdi flestar sögurnar en Rob-Vel teiknaði. Toto var augljós fyrirmynd Svals, sem Rob-Vel skóp árið 1938 fyrir útgefandann Dupuis. Talið er þau hjónin hafi ekki síður unnið náið saman við sköpun Svals og Toto. Samhliða þeim ævintýrum kom Dumoulin að því að teikna og semja ýmislegt annað efni fyrir blöðin tvö.

Dumoulin kom einnig að gerð myndasagna með Luc Lafnet vini og samverkamanni þeirra hjóna. Lafnet hafði teiknað sögur um nokkurra ára skeið undir listamannsnafninu Davine, sem þau Dumoulin héldu áfram að nota í sameiginlegum verkefnum sínum. Eftir dauða Lafnet, í september 1939, hélt Dumoulin áfram um nokkurt skeið að merkja ýmis verk sín með þessu listamannsnafni. Þessi nafnaflækja olli því að lengi vel var Dumoulin ranglega talin eini höfundurinn á bak við Davine-nafnið, sem olli því að þáttur Lafnet á upphafsskeiði Svals vildi gleymast.

Rob-Vel var kvaddur í herinn fljótlega eftir að seinni heimsstyrjöldin braust út. Hann reyndi að teikna sem mest af Svals-sögum úr herbúðunum og senda til Parísar, þar sem Dumoulin áframsendi þær til útgáfufyrirtækisins í Brussel. Eftir að teiknarinn var sendur á vígstöðvarnar tók fyrir þessar sendingar og til að brúa bilið greip Dumoulin til þess ráðs að semja Svals-ævintýri og ýmist teiknaði sjálf eða fékk aðra listamenn til að hlaupa í skarðið undir heitinu Davine. Meðal þeirra sem aðstoðuðu hana á þessu tímabili var teiknarinn J. Van Straelen en afar erfitt er að leggja mat á framlag einstakra listamanna til verkefnisins á þessu tímabili.

Vegna stríðsins urðu samgöngur milli Frakklands og Belgíu sífellt erfiðari og að lokum greip útgáfufyrirtækið Dupuis til þess ráðs í október 1940 að fela Belganum Jijé að teikna Sval. Rob-Vel tók aftur við penslinum árið eftir en á árinu 1942 varð að ráði að Dupuis keypti höfundarréttinn að persónu Svals og lauk þar með endanlega afskiptum þeirra hjóna af myndasöguflokknum.

Blanche Dumoulin hætti afskiptum af bókaútgáfu fljótlega eftir stríð og hvarf nær algjörlega úr sviðsljósinu. Maður hennar hélt áfram að semja myndasögur um áratuga skeið en engar þeirra nutu viðlíka velgengni og ævintýri Svals. Það var ekki fyrr en löngu eftir dauða Dumoulin árið 1975 að hún tók að vekja áhuga bókmenntafræðinga sem „týndu konunni“ í sögu Svals & Vals-bókaflokksins.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Blanche Dumoulin; grein á myndasöguvefnum Lambiek.net
  • Splint & Co. 1938-1946. Egmont Serieforlaget. 2009. ISBN 978-87-7679-560-3.