Fara í innihald

Bertrand de Jouvenel

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Bertrand de Jouvenel (31. október 1903 - 1. mars 1987) var franskur rithöfundur, hagfræðingur og stjórnmálaheimspekingur, sem mælti gegn auknu ríkisvaldi og aðhylltist frjálshyggju.

Ævi og störf[breyta | breyta frumkóða]

Faðir Jouvenels, Henri de Jouvenel barón, var embættismaður og ritstjóri og róttækur í stjórnmálaskoðunum, þótt hann væri af tignum ættum. Móðir Jouvenels, Sarah Clair Boas, sem var af auðugum gyðingaættum, studdi sjálfstæðisbaráttu Tékka, og gerðist Bertrand de Jouvenel kornungur einkaritari Edvard Beneš, fyrsta forsætisráðherra Tékkóslóvakíu, sem síðar varð forseti landsins. Seinni kona barónsins var hinn kunni rithöfundur Colette, og áttu hún og stjúpsonur hennar saman ástarævintýri, sem Colette skrifaði að sögn um í skáldsögunni Chéri. Á 4. áratug var de Jouvenel sjálfstæður rithöfundur og blaðamaður og ferðaðist víða um Norðurálfuna (Evrópu). Hann þá fyrst flokk yst til vinstri, en síðan stuttlega annan flokk yst til hægri í frönskum stjórnmálum. Hann gerðist hins vegar frjálshyggjumaður af ótta við aukið ríkisvald og dvaldist í útlegð í Sviss seinni hluta stríðsáranna. Hann var einn af stofnendum Mont Pèlerin Society 1947. Hann kenndi síðan í nokkrum háskólum og gaf út fjölda bóka, hin síðari ár aðallega um, hvort sjá mætti framtíðina fyrir. 1983 höfðaði de Jouvenel meiðyrðamál gegn rithöfundi af gyðingaættum, sem haldið hafði því fram, að hann hefði verið hlynntur samstarfi Vichy-stjórnarinnar við nasista í stríðinu. Hinn kunni stjórnmálaskýrandi Raymond Aron stóð upp úr banalegunni og bar vitni fyrir de Jouvenel í réttarsal, en dó síðan. Vann Jouvenel málið.

Stjórnmálaheimspeki[breyta | breyta frumkóða]

Jouvenel gerði eins og aðrir stjórnmálaheimspekingar greinarmun á tekjudreifingu sem niðurstöðu og aðgerð. Tekjudreifing, sem verður til á frjálsum markaði, er niðurstaðan úr viðskiptum frjálsra og fjárráða einstaklinga. En þegar ríkið tekur af fólki fé með skattlagningu og skiptir því síðan upp eftir eigin reglum, er tekjudreifingin aðgerð og ætti frekar að heita tekju-endurdreifing (e. redistribution). Jouvenel hélt því fram, að slík endurdreifing tekna hefði ekki og gæti ekki haft þær afleiðingar, sem að væri stefnt, að færa aðeins fé frá ríkum til fátækra; þar sem hinir ríku eru fáir og hinir fátæku margir (samkvæmt skilgreiningu, enda ella enginn vandi á ferð), verður líka að skattleggja fólk með meðaltekjur og jafnvel minna. Slík endurdreifing hefði í öðru lagi þær afleiðingar, að vald flyttist frá almenningi til hins opinbera og ábyrgðarkennd einstaklinga sljóvgaðist. Í þriðja lagi hefði slík endurdreifing þær afleiðingar, að ýmsum sérþörfum fámennra hópa yrði síður fullnægt, en með því drægi úr fjölbreytni mannlífsins.

Helstu rit[breyta | breyta frumkóða]

  • Du Pouvoir. Histoire naturelle de sa croissance. Genève 1945.
  • On Power: Its Nature and the History of its Growth. London 1949.
  • The Ethics of Redistribution. Cambridge 1952.
  • De la souveraineté. Paris 1955.
  • Sovereignty. An Inquiry into the Political Good. Chicago 1957.
  • Economics and the good life. Essays on Political Economy. New Brunswick 1999.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]