Babýlónía

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Babýlónía á tímum Hammúrabis.

Babýlónía var fornt ríki og menningarsvæði í Mesópótamíu þar sem nú er Írak. Ríkið var stofnað af akkadískumælandi Amorítum um 1894 f.Kr. í kringum bæinn Babýlon. Babýlon varð höfuðborg Fyrsta Babýlóníuveldisins og ríkið stækkaði mjög í valdatíð Hammúrabis á fyrri hluta 18. aldar f.Kr.

Babýlónía átti oft í átökum við Assýríu í norðri og Elam í austri. Eftir lát Hammúrabis minnkaði Babýlónía hratt og varð að smáríki. Síðasti Amorítakonungur Babýlóníu var Samsu-Ditana (1562–1531 f.Kr.). Honum var steypt af stóli eftir að Hittítar, undir stjórn Mursili 1., rændu borgina (um 1531 f.Kr. samkvæmt kenningunni um stutta tímatalið). Eftir rán borgarinnar tóku við yfirráð Kassíta og síðar Elamíta. Nebúkadnessar 1. rak Elamíta frá Babýlon. Um hundrað árum síðar féll Babýlónía í hendur Arameum og Suteum á flótta undan Bronsaldarhruninu í vestri. Babýlónía varð hluti af Nýja Assýríuveldinu á 8. öld f.Kr. Á 7. öld f.Kr. hófst borgarastyrjöld innan Assýríu og Babýlónía gerði uppreisn undir stjórn Nabóplassars sem stofnaði Nýja Babýlóníuveldið. Akkamenídaríkið lagði Babýlóníu undir sig árið 539 f.Kr. Síðar lagði Alexander mikli landið undir sig og stofnaði landstjóradæmið Babýlóníu. Síðar varð það hluti af Parþaveldinu. Eftir árið 226 var Mesópótamía undir samfelldum yfirráðum Sassanída fram að landvinningum Araba á 7. öld.

  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.