Fara í innihald

BACH-mótífið

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

BACH-mótífið er mótíf sem samanstendur af nótunum B-A-C-H í þessari röð.

Þetta fjögurra nótna mótíf hefur verið notað af ýmsum tónskáldum, oftast til heiðurs Johann Sebastian Bach. Fyrsta þekkta dæmið um notkun þess er hins vegar í verki eftir Jan Pieterszoon Sweelinck, sem hafði þegar verið dáinn í 56 ár þegar J. S. Bach fæddist. Þó er sá möguleiki fyrir hendi að hann hafi gert það til heiðurs eldri meðlimum Bach ættarinnar, en þeir voru margir hverjir tónlistarmenn.

Bach sjálfur notaði mótífið í fúgu í seinasta hluta Die Kunst der Fuge (BWV 1080), verki sem hann lauk ekki fyrir dauða sinn árið 1750. Það birtist einnig, í minna mikilvægum hlutverkum, í nokkrum öðrum verka hans. Fúga fyrir hljómborð í F-dúr eftir einn sona Bachs, líklega annaðhvort Carl Philipp Emanuel Bach eða Johann Christian Bach, inniheldur líka mótífið en það var ekki fyrr en á 19. öld þegar áhugi á Bach og verkum hans kviknaði á ný að farið var að nota það reglulega.

Ef til vill vegna þess að Bach sjálfur notaði það í fúgu er það oft notað af tónskáldum í fúgum eða öðrum flóknum kontrapunktískum tónsmíðum.