Fara í innihald

Skeiðsfjall

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Búrfellsjökull)
Skeiðsfjall
Bæta við mynd
Hæð1.231 metri
LandÍsland
SveitarfélagDalvíkurbyggð
breyta upplýsingum

Skeiðsfjall er 1.231 m hátt fjall við innanverðan Svarfaðardal á milli þverdalanna Vatnsdals og Grýtudals. Bærinn Skeið stendur undir fjallinu. Fjallið er gert úr basalthraunlögum 10-11 milljón ára gömlum. Allmikið og forntberghlaup hefur hlaupið úr Skeiðsfjalli niður í Vatnsdalinn og síðan áfram allt niður í Svarfaðardal. Berghlaupsurðin stíflaði Vatnsdalsána og allmikið vatn, Skeiðsvatn, myndaðist innan við hana. Silungsveiði er í vatninu.

Vestar í fjallaklasanum við innanverðan Svarfaðardal eru hlaupjöklarnir Búrfellsjökull og Teigardalsjökull.

Búrfellsjökull er hlaupjökull við Búrfellsdal, nærri Svarfaðardal, sem hleypur fram á nokkurra áratuga fresti. Í grennd við Búrfellsjökul er Teigardalsjökull. Hann er einn af minnstu hlaupjöklum heims.[1] Jökulhlaup kom úr jöklinum 1912[2], 2001-2003[3] og 1890.[4] Neðan við Búrfellsdal er sveitabærinn Búrfell með stórt kúabú.

Teigardalsjökull er hlaupjökull við Teigardal, nærri Svarfaðardal, sem hleypur fram á nokkurra áratuga fresti. Hann er einn af minnstu hlaupjöklum heims.[1] Jökulhlaup kom úr jöklinum á áttunda áratugnum[3], 1870-1890[4] og 1971. 1971 varð Svarfaðardalsá mórrauð vegna jökulhlaupsins.[2]

  1. 1,0 1,1 Náttúrufarsánnáll 2003. Náttúrufræðingurinn. 2005.
  2. 2,0 2,1 Svarfaðardalsá mórrauð af Jökulhlaupi. Tíminn. 22.09.1971.
  3. 3,0 3,1 Yfir fimmtíu jöklar í Dalvíkurbyggð. Norðurslóð. 24.09.2009.
  4. 4,0 4,1 Surge fingerprinting of cirque glaciers. Jökull. 01.12.2007.