Búðardalur (Skarðsströnd)
Búðardalur | |
---|---|
Land | Ísland |
Sveitarfélag | Dalabyggð |
Hnit | 65°17′35″N 22°12′56″V / 65.293004°N 22.215682°V |
breyta upplýsingum |
Búðardalur er bær og áður kirkjustaður á Skarðsströnd í Dalasýslu og er oft ruglað saman við kauptúnið Búðardal við Hvammsfjörð, sem einnig er í Dalasýslu.
Búðardals er getið í Landnámu og sagt að þar hafi Geirmundur heljarskinn dvalið fyrsta vetur sinn á Íslandi, áður en hann byggði bæ sinn á Geirmundarstöðum. Kirkja var í Búðardal frá fornu fari en var lögð niður 1849.
Búðardalur er landmikil jörð og var raunar enn landmeiri áður því þá tilheyrðu Akureyjar jörðinni. Þar bjuggu margir stórbændur og er þeirra þekktastur Magnús Ketilsson sýslumaður, sem þar bjó á 18. öld og stundaði þar mikla tilraunastarfsemi í ræktun og jarðyrkju. Hann lét meðal annars byggja mikið salerni á bænum, en þau voru þá mjög fátíð á Íslandi, fyrst og fremst til þess að drýgja áburðinn á túnin.[1] Hann skrifaði líka og gaf út fjölda bóka og annarra rita sem prentuð voru í Hrappsey. Dóttursonur Magnúsar var séra Friðrik Eggerz, oftast kenndur við Akureyjar þar sem hann bjó lengst, en hann bjó þó um tíma í Búðardal og var jarðaður þar.