Akureyjar (Skarðsströnd)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Akureyjar er eyjaklasi fyrir Skarðsströnd í Dalasýslu, út af mynni Gilsfjarðar og hafa eyjarnar raunar stundum verið sagðar í Gilsfirði.[1] Heimaeyjan, þar sem bærinn var, er í miðjum klasanum, umkringd um 30 smærri eyjum og er víða grunnt á milli eyjanna og hægt að ganga þar um fjöru. Varast ber að rugla eyjunum saman við Akureyjar í Helgafellssveit.

Á fyrri öldum voru eyjarnar stundum byggðar en stundum ekki þótt þar þætti góð bújörð því eigendur þeirra bjuggu á höfuðbólum uppi á landi og vildu stundum nýta eyjarnar sem hlunnindi í stað þess að leigja þær. Þar var þó búið 1703 en á meðan Magnús Ketilsson sýslumaður bjó í Búðardal á síðari hluta 18. aldar og átti eyjarnar nytjaði hann þær sjálfur. Afkomendur hans settust þar svo að og dóttursonur hans, séra Friðrik Eggerz, bjó þar frá 1851 um nær 30 ára skeið og er þekktasti ábúandi eyjanna. Minningar hans, Úr fylgsnum fyrri aldar I-II, komu út á árunum 1950-1952. Sonur hans var Sigurður Eggerz, rithöfundur og ráðherra, og ólst hann hér upp.

Ein af vinnukonum séra Friðriks í Akureyjum var skáldkonan Júlíana Jónsdóttir, sem varð fyrst íslenskra kvenna til að gefa út ljóðabók, og var hún oft kennd við eyjarnar.[2]

Akureyjar fóru í eyði 1954. Síðasti ábúandi eyjanna var Tómas Jónsson frá Elivogum á Langholti í Skagafirði, þekktur sem fyrirmyndin að Hervaldi í Svalvogum í skáldsögu Indriða G. Þorsteinssonar, Þjófur í Paradís.[3]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. [1] Morgunblaðið, 19. júlí 1979.
  2. [2] Eftirgrennslan um Júlíönu Jónsdótur skáldkonu. Lögberg-Heimskringla, 1. október 1969.
  3. [3] Sagan sem aldrei var sögð. Morgunblaðið, 4. september 2004.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Friðrik Eggerz: Úr fylgsnum fyrri aldar I-II. Iðunn, Reykjavík 1950-1952.
  • „Jól á eyðihólma. Sunnudagsblað Tímans, 15. ágúst 1965“.