Fara í innihald

ATTAC samtökin

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Attac samtökin)
Meðlimir ATTAC á mótmælafundi í Köln 2004

ATTAC (skammstöfun sem stendur fyrir Association pour la taxation des transactions financières pour l'aide aux citoyens og Association for the Taxation of financial Transactions and Aid to Citizens) eru samtök sem vinna að málefnum sem tengjast hnattvæðingu og neikvæðum afleiðingum fjárhagslegrar hnattvæðingar og einkavæðingar. Samtökin urðu til árið 1998 í Frakklandi. Alls eru deildir 48 löndum um allan heim. Félagar eru alls yfir 85.000. Íslandsdeild ATTAC samtakanna var stofnuð 2009. Formaður Íslandsdeildar ATTAC samtakanna er Sólveig Anna Jónsdóttir.

Saga ATTAC samtakanna

[breyta | breyta frumkóða]

Í desember árið 1997 skrifaði ritstjóri franska blaðsins Le Monde diplomatique, Spánverjinn Ignacio Ramonet, grein í blaðið um nauðsyn þess að koma á örskatti á gjaldeyrisbrask, hinum svokallaða Tobin-skatti. Stofna þyrfti samtök sem myndu þrýsta á yfirvöld hvarvetna um að koma á þessum skatti. Í kjölfarið voru ATTAC samtökin stofnuð.

Stefnumál ATTAC samtakanna

[breyta | breyta frumkóða]

Upphaflegt stefnumið ATTAC var aðeins eitt, að krefjast þess að Tobin-skatt yrði komið á. ATTAC vinnur nú að fjölda málefna sem tengjast hnattvæðingu og neikvæðum afleiðingum fjárhagslegrar hnattvæðingar og einkavæðingar. Samtökin hafa eftirlit með starfi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, WTO; Efnahags- og framfarastofnunarinnar OECD og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins AGS.

ATTAC lítur ekki á sig sem andstæðing hnattvæðingar en gagnrýnir þá hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar sem samtökin líta á að stýri hnattvæðingunni. Þau styðja það sem þau kalla sjálfbæra hnattvæðingu og félagslegt réttlæti. Þá fordæma samtökin markaðsvæðingu samfélagsins. Eitt af slagorðum ATTAC er „Veröldin er ekki til sölu“.

Starfsemi ATTAC samtakanna

[breyta | breyta frumkóða]

Samtökin eru grasrótarsamtök en skipulag þeirra byggir á hugmyndum um valddreifingu. Hver deild er sjálfstæð og skipuleggur fundi, ráðstefnur og semur og dreifir kynningarefni. Nokkur munur er á starfsemi samtakanna milli landa en hver deild beinir spjótum sínum að neikvæðum birtingarmyndum hnattvæðingar og fjármálavæðingar í sínu eigin landi.

ATTAC vill virkja almenning til baráttu, tengja saman fræðasamfélagið og almenning og fræða almenning um starfsemi alþjóðastofnana sem samtökin hafa eftirlit með, birtingarmyndir hnattvæðingar og afleiðingar fjármálavæðingar.

ATTAC var einn af þeim aðilum sem skipulagði og boðaði til World Social Forum í Porto Alegre í Brasilíu 2001 en þar myndaðist vettvangur þar sem hnattvæðingu á forsendum nýfrjálhyggju var kröftuglega mótmælt.

Baráttumál

[breyta | breyta frumkóða]
  • Stýring á fjármálamörkuðum með skatti á gjaldeyrisbrask (Tobin-skatturinn)
  • Réttlát viðskipti í stað frjálsra viðskipta („fair trade, not free trade“). Markmiðinu skal náð með lýðræðislegri stýringu Heimsviðskiptastofnunarinnar og alþjóðlegra fjármálastofnana á borð við AGS, Alþjóðabankann, Evrópusambandið, NAFTA, FTAA (Free Trade Area of the Americas) og G8.
  • Almenn og ókeypis gæði eins og loft, vatn og upplýsingar skulu varðar fyrir ágangi nýfrjálshyggjunnar.
  • Almenn félagsleg þjónusta skal varin fyrir ágangi nýfrjálshyggjunnar. Þar er átt við þjónustu á sviði heilbrigðismála, félagsþjónustu og félagslegra trygginga. ATTAC snýst gegn einkavæðingu lífeyris- og heilbrigðiskerfisins. Það snýst einnig gegn erfðabreyttum matvælum.
  • ATTAC berst fyrir því að skattaskjólum alþjóðafyrirtækja og auðmanna sé lokað.
  • ATTAC berst fyrir sjálfbærri hnattvæðinu.
  • ATTAC berst fyrir því að skuldir þróunarríkja skuli afskrifaðar.
  • ATTAC berst gegn Lissabon-sáttmálanum um stjórnarskrá fyrir Evrópu.

Árni Daníel Júlíusson, „Hvað er ATTAC“, http://www.attac.is/index.php?option=com_content&view=section&layout=blog&id=3&Itemid=41 Geymt 12 febrúar 2010 í Wayback Machine Skoðað 29. september 2010, kl. 8:10.