Fara í innihald

Asklepios

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Asklepíos)
Asklepios

Asklepios, stundum kallaður Æskulápur, (gríska: Ἀσκληπιός) er í grískri goðafræði guð læknisfræðinnar og lækninga. Hann var sonur Apollons og faðir Hygieiu, heilbrigðisgyðjunnar. Kennimerki Asklepiosar eru stafur og slanga sem venjulega hlykkjast um stafinn og nefnist Asklepiosarstafurinn og er alþjóðlegt tákn læknavísindanna.

Foreldrar Asklepiosar

[breyta | breyta frumkóða]

Apollon felldi ástarhug til Korónis, þessalskrar konungsdóttur, og þekktist hún guðinn, en var honum ekki trú. Hrafninn komst um ótryggð hennar og gerði Apollon aðvart. Skaut Apollon þá einni af sínum óskeikulu örvum í brjóst meyjarinnar. Áður en hún andaðist, barmaði hún sér sáran, þó ekki yfir sínum eigin örlögum, heldur barnsins sem hún gekk með undir belti. Apollon iðraðist, en það var um seinan. Lagði hann þá Korónis á bálköstinn, en tók ungbarnið og fékk það hinum lækningafróða kentár, Keiron, til fósturs. Þessi sonur Apollons var Asklepios.

Að vekja dauða til lífsins

[breyta | breyta frumkóða]

Þegar Asklepios varð eldri fékk Aþena honum blóð úr Gorgóunum, en með því gat hann læknað sjúka og jafnvel vakið dauða til lífsins. Er Hades sá þannig gengið á yfirráð sín, bar hann sig upp við Seif. Laust hann Asklepios eldingu í refsingarskyni fyrir það að hann hafði dirfst að rjúfa lögmál náttúrunnar. Apollon hefndi dauða sonar síns með því að drepa Kýklópa sem höfðu smíðað eldingarnar handa Seifi.

Asklepios átti frægt hof á eynni Kos. Í sambandi við það var merkilegur læknaskóli, er alveg sérstaklega stuðlaði að því að hefja grísku læknavísindin til þeirrar fullkomnunar sem þau náðu. Dýrkun Asklepiosar var annars mjög útbreidd. Til Aþenuborgar barst hún um árið 420 f.Kr. Í Róm var Asklepios (á latínu: Aesculapius) fyrst dýrkaður í mynd hinnar heilögu slöngu (292 f.Kr.). Var honum reist hof á Tíberey.

  • „Hvers vegna er snákur notaður sem tákn læknisfræðinnar?“. Vísindavefurinn.
  Þessi fornfræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.