Antilópur
Antilópur | ||||||||||||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
Antilópur
| ||||||||||||
Ástand stofns | ||||||||||||
Vísindaleg flokkun | ||||||||||||
|
Antilópur tilheyra ætt slíðurhyrninga (Bovidae) en innan hennar eru fjölmargar tegundir grasbíta. Antilópur eru allar þær tegundir slíðurhyrninga sem ekki eru nautgripir, sauðfé eða geitur og eru það alls um 90 tegundir. Dæmi um antilópur eru moskusantilópa, þumalína og dvergantilópa. Antilópur er aðallega að finna í Afríku, en þær er einnig að finna í Evrasíu.
Útlit
[breyta | breyta frumkóða]Antílóputegundir eru margar og allólíkar í útliti. Þær eru þó allar klaufdýr og flestar með lárétt sjáöldur. Karldýrin eru alltaf hyrnd og á sumum tegundum kvendýrin líka. Hornin eru mjög mismunandi að stærð og útliti, þau geta verið bein, snúin eða bogin. Flestar tegundir hafa tvö horn á hausnum, en til eru þó ferhyrndar tegundir. Hornin geta verið mjög mismunandi að lengd, en minni breytileiki er í gildleika. Feldurinn á antilópum er í rauðum, gulum, brúnum eða gráum litbrigðum, en oftast er hann hvítur á kviði, haus og afturenda. Antilópur eru gjarnan frá því að vera á stærð við geit upp í að vera á við hreindýr, en til er þó að þær séu mun stærri eða mun minni. Stærsta tegundin getur t.d. orðið allt að 1,8 metrar á hæð og og vegið um 1 tonn, á meðan önnur tegund er aðeins 24 cm á hæð og 1,5 kg.
Lifnaðarhættir
[breyta | breyta frumkóða]Búsvæði
[breyta | breyta frumkóða]Antilópur lifa flestar á opnum grassléttum og eyða allri ævi sinni þar. Sumar tegundir lifa þó í skógum, þar sem nóg er af gróðri sem grasbítar eins og þær geta nýtt sér. Þær geta samt víða komist af ef nóg er af gróðri, ein tegund lifir t.d hátt uppi í fjöllum Kenýa. Sumar tegundir eru líka háðari vatni en aðrar, og kjósa sér þess vegna búsvæði nálægt ám eða þar sem nóg er af vatni.
Mataræði
[breyta | breyta frumkóða]Antilópur eru jurtaætur og aðalfæða þeirra gras og lauf. Til eru þó tegundir sem éta líka skordýr, lítil spendýr og fugla en það er fátítt. Þær fara víða um á beit sinni og ein áhugaverð tegund eltir zebrahesta sem bíta hávaxnara gras og étur svo sneggra grasið sem þeir skilja eftir.
Líf antilópa
[breyta | breyta frumkóða]Meðgöngutími antilópanna er mismunandi eftir stærð tegundanna, oft 4-9 mánuðir. Eftir burð gætir antilópan kálfsins á meðan hann er á spena og felur hann oft fyrstu vikurnar í háu grasi eða laut svo rándýr finni hann síður. Þegar kálfarnir eru orðnir nógu stórir fara þeir saman við hjörðina og mynda hópa með öðrum kálfum. Æxlunarferli hjá antilópum er allmismunandi. Sumar tegundir eru einkvænisdýr og eiga bara einn maka ævina út á meðan aðrar tegundir eiga marga, og fer það nokkuð eftir því hvernig búsvæði þeirra eru. Antilópur geta lifað allt að 10 ár úti í náttúrunni, en allt að 20 ár í umönnun manna.
Varnarhættir
[breyta | breyta frumkóða]Antilópur eiga ýmsar varnir sem þær geta beitt gegn rándýrum sem veiða þau. Flestar tegundirnar eru gríðarlega sprettharðar og nýta sér það vel, þær taka á rás um leið og þær skynja hættu. Þegar þær hlaupa eiga þær til að hoppa á marga skrýtna vegu og rugla rándýrin þannig í ríminu. Ýmsar antilópur eru líka mjög góðar í að fela sig og nýta sér það mikið. Ef ekkert af þessu dugar eru þær með horn sem eru beitt og sumar tegundir nota þau óspart sér til varnar ef þær þurfa.
Tenglar
[breyta | breyta frumkóða]http://animals.sandiegozoo.org/animals/antelope
http://www.softschools.com/facts/animals/antelope_facts/39/
http://www.visindavefur.is/svar.php?id=6043
http://animalsadda.com/antelope/ Geymt 10 maí 2016 í Wayback Machine