Fara í innihald

Colosseum

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Amphitheatrum Flavium)
Best varðveitti hlutinn af Colosseum.

Colosseum (einnig ritað Coliseum eða Kólosseum), upprunalega Flavíanska hringleikahúsið (latína: Amphitheatrum Flavium), er stærsta hringleikahúsið sem byggt var í Rómaveldi. Það gat upprunalega tekið við 50.000 manns í sæti og var notað fyrir bardaga skylmingaþræla og annarra svipaðra skemmtana. Colosseum var byggt á árunum 72 til 80, það var Vespasíanus sem lét hefja byggingu þess en sonur hans Títus var kominn til valda þegar húsið kláraðist. Það var notað til ársins 217 þegar það skemmdist þegar það varð fyrir eldingu. Það var ekki gert upp fyrr en árið 238 en eftir það var það notað til ársins 524. Hætt var að sýna bardaga skylmingaþræla stuttu eftir að kristni varð ríkistrú en húsið var enn notað fyrir ýmsar aðrar skemmtanir. Á miðöldum átti Colosseum mjög erfiða tíma en þá skemmdist húsið mikið í jarðskjálftum, var notað sem virki og kirkja reist í hluta þess. Þar að auki var mikið af steinunum sem byggingin er gerð úr teknir til að byggja nýjar byggingar, til dæmis fór mikið af marmaranum í Péturskirkjuna. Á síðari tímum hefur Colosseum, eða það sem eftir er af því, orðið eins konar tákn fyrir borgina og hið forna Rómaveldi.