Fara í innihald

Ítalska þjóðarbandalagið

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Alleanza nazionale)

Ítalska þjóðarbandalagið, Alleanza nazionale eða AN var ítalskur íhaldssamur og þjóðernissinnaður stjórnmálaflokkur. Flokkurinn var stofnaður árið 1995 af Gianfranco Fini og fyrrum meðlimum Ítölsku félagshreyfingarinnar (MSI) sem var arftaki fasistaflokksins, og íhaldssömum fyrrum meðlimum Kristilega demókrataflokksins. Merki MSI var hluti af merki nýja flokksins. Á árunum fyrir stofnun AN hafði MSI smám saman verið að breytast úr fasistaflokki í hefðbundinn hægriflokk. AN hafnaði þannig stjórnmálahugmyndum forvera sinna. Fini lýsti því yfir í heimsókn í Ísrael árið 2003 að kynþáttalög fasistastjórnarinnar á Ítalíu frá 1938 hefðu verið skammarleg. Vegna þessa sögðu Alessandra Mussolini og fleiri harðlínumenn sig úr flokknum og stofnuðu smáflokkinn Azione sociale árið 2003.

Flokkurinn bauð fram innan kosningabandalags hægriflokka, Hús frelsisins, undir forystu Silvio Berlusconi. Fini varð varaforsætisráðherra eftir kosningarnar 2001 og var utanríkisráðherra frá 2004 til 2006. Árið 2009 sameinaðist flokkurinn flokki Berlusconis, Áfram Ítalía, og myndaði Frelsisþjóðina. Margir af fyrrum meðlimum Ítalska þjóðarbandalagsins klufu sig úr Frelsisþjóðinni árið 2012 og mynduðu nýjan flokk, Bræður Ítalíu, sem viðhalda sumum af merkjum Ítalska þjóðarbandalagsins.[1]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Fratelli d'Italia riaccende la 'fiamma'. Nel nuovo logo i simboli di Msi e An“ (ítalska). TGcom24. 16. febrúar 2014. Sótt 11. ágúst 2022.
  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.