Akademískt frelsi
Akademískt frelsi er frelsi háskólakennara, háskólanemenda og háskólanna sjálfra til að leita þekkingar hvert svo sem leitin leiðir, án óeðlilegra afskipta.[1] lágmarksskilyrði akademísks frelsis eru að geta tekið þátt í öllum sviðum þekkingarleitarinnar, þ.á m. að velja sér rannsóknarefni, að ákveða kennsluefni, að kynna samstarfsfólki niðurstöður rannsókna og gefa niðurstöðurnar út.[2] Akademísku frelsi eru settar skorður. Í Bandaríkjunum ættu kennarar til að mynda að forðast að ræða í kennslustofum sínum umdeild efni sem tengjast ekki þeirra greinum.[3] Á opinberum vettvangi er þeim aftur á móti frjálst að tjá skoðanir sínar. Reglur um fastráðningar standa vörð um akademískt frelsi með því að tryggja að einungis sé hægt að víkja kennara úr starfi af ásættanlegum ástæðum, svo sem vegna faglegrar vanrækslu eða vegna hegðunar sem fræðasamfélagið sjálft fordæmir.
Akademískt frelsi nemenda
[breyta | breyta frumkóða]Hugmyndir um akademískt frelsi sem rétt nemenda er upprunnin í Þýskalandi (þekkt á þýsku sem Lernfreiheit eða lærdómsfrelsi). Samkvæmt þessari hugmynd á nemandanum að vera frjálst að móta eigin námsleið með því að velja sér námskeið að eigin vild í háskóla að eigin vali. Hugmyndin barst til Bandaríkjanna á 19. öld með nemendum og fræðimönnum sem höfðu numið við þýska háskóla. Hún hafði hvað mest áhrif á Harvard-háskóla undir stjórn Charles William Eliot á árunum 1872 til 1897; þá var eina skyldunámskeið nemenda á fyrsta ári í mælskufræði.
Akademísku frelsi nemenda er víðast hvar settar skorður af kennaraliði skólans, sem ákvarðar hvaða sjónarmið standast fræðilegar kröfur, jafningjamat og njóta viðurkenningar í viðkomandi grein.
Akademískt frelsi fræðimanna
[breyta | breyta frumkóða]Hugmyndin um akademískt frelsi kennara og fræðimenna innan veggja háskóla (á þýsku Lehrfreiheit) er rótgróin a Vesturlöndum. Hugmyndin felur í sér rétt fræðimannsins til að stunda rannsóknir að eigin vali og birta niðurstöður rannsókna sinna. Hugmyndir um frelsi kennarans í kennslustofunni eru breytilegar frá einu landi til annars.
Í þýsku hefðinni er prófessorum frjálst að reyna að sannfæra nemendur sína um sínar eigin skoðanir.[4] Aftur á móti eru þeir hvattir til að láta ekki í ljósi skoðanir sínar utan kennslustofunnar, einkum stjórnmálaskoðanir. Á prófessornum hvíla engar skyldur eða kvaðir um námsefni eða námsfyrirkomulag.
Í Bandaríkjunum er litið svo á að prófessor sé frjálst að fjalla um sín fræði í kennslustofnunni en það þykir ekki sjálfsagt að prófessorinn reyni að sannfæra nemendur sína um sínar eigin skoðanir. Aftur á móti nýtur prófessorinn meira frelsis utan kennslustofunnar, einkum á opinberum vettvangi.
Í Frakklandi er mikil áhersla lögð á hlutleysi og óhlutdrægni, ekki síst þegar um stjórnmála- og trúarskoðanir er að ræða. Akademískt frelsi og málfrelsi kennara er þó tryggt með lögum. Ráðningarferli er byggt á jafningjamati.
Akademískt frelsi háskóla
[breyta | breyta frumkóða]Hugmyndin um akademískt frelsi háskólans sem stofnunar er einkum fólgin frelsi hennar til að ráða í stöður, bjóða nemendum skólavist og gera kröfur til bæði nemenda og kennara. Hugmyndinni er ef til vill betur lýst sem hugmynd um sjálfræði stofnunarinnar og sjálfstæði t.d. frá fjárveitingavaldinu (í tilfelli ríkisrekinna háskóla).
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Columbia University (2005). First Global Colloquium of University Presidents, „Statement on Academic Freedom“ Geymt 19 júní 2006 í Wayback Machine.
- ↑ Ralph E. Fuchs (1969). „Academic Freedom—Its Basic Philosophy, Function and History“ hjá Louis Joughin (ritstj.), Academic Freedom and Tenure: A Handbook of the American Association of University Professors.
- ↑ „1940 Statement of Principles on Academic Freedom and Tenure“ Geymt 8 febrúar 2007 í Wayback Machine.
- ↑ Walter P. Metzger (1955). Academic Freedom in the Age of the University (New York: Columbia University Press).