AOL

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search
Disklingur með AOL-hugbúnaði fyrir Windows frá 1994.

AOL (áður America Online) er bandarískt fjölmiðlafyrirtæki með höfuðstöðvar í New York-borg. AOL er dótturfyrirtæki Verizon Communications. Fyrirtækið fæst einkum við dreifingu efnis á Veraldarvefnum og það á og rekur vefi á borð við The Huffington Post, TechCrunch og Engadget.

Fyrirtækið var stofnað árið 1983 og hét þá Control Video Corporation eða CVC. Fyrirtækið rak tölvunet fyrir Atari 2600-leikjatölvur sem hægt var að tengjast gegnum mótald. Árið 1985 var nýtt fyrirtæki, Quantum Computer Services, stofnað á grunni CVC með netþjónustuna Quantum Link fyrir Commodore 64 og 128. Árið 1988 kom AppleLink fyrir Apple Macintosh-tölvur og PC Link fyrir IBM PC-samhæfðar tölvur. Árið 1989 breytti fyrirtækið nafni sínu í America Online. Netleikir voru mikilvægur hluti af þjónustu fyrirtækisins. Árið 1993 bauð fyrirtækið upp á Internet-tengingu fyrir notendur. Það var þá orðið stærra en helstu keppinautar sínir, GEnie, Prodigy og CompuServe. Árið 2000 sameinaðist AOL fjölmiðlarisanum Time Warner. Hluthafar AOL eignuðust 55% í nýja fyrirtækinu.

Eftir 2002 tók notendum AOL að fækka. Árið 2006 lokaði AOL síðasta þjónustuveri sínu í Bandaríkjunum. Árið 2009 var fyrirtækinu breytt í sjálfstætt netmiðlafyrirtæki með tekjur byggðar á auglýsingum. Það keypti vefmiðla á borð við The Huffington Post og hóf framleiðslu heimildaþátta. Árið 2015 keypti Verizon AOL.

Wiki letter w.svg  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.