Athyglisbrestur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá ADHD)
Jump to navigation Jump to search

Athyglisbrestur (alþjóðleg skammstöfun: ADHD) er taugaröskun sem veldur einbeitingarskorti ýmist með ofvirkni (ADHD) eða án (ADD). Greiningarskilmerki fyrir ADHD eru fjölmörg og við greiningu fullorðinna er litið til hvort einkenni voru í barnæsku. Þó einkenni ADHD sé oft ofvirkni liggur meinsemdin í vöntun á ákveðnum boðefnum í ákveðnum hlutum heilans. Þannig miðar örvandi lyfjameðferð að leiðrétta styrkinn. Lesblinda og athyglisbrestur eiga sér í sumum tilvikum orsakasamband og greiningar á lesblindu eru oft rökstuddar á þeim grundvelli að vegna athyglisbrests hafi einkenni lesblindu gert vart við sig.[1]. Oft geta hljóðbækur hjálpað einstaklingum með ADHD eða ADD við nám. Hljóðbókasafn Íslands[2] veitir þeim sem hafa ADHD-greiningu aðgang að hljóðbókum.

Meingerð[breyta | breyta frumkóða]

Í heilanum eru margar gerðir taugafrumna og ein þessara gerða er adrenvirkar taugafrumur. Þar sem tvær slíkar mætast er taugamótabil og þangað losna ýmis boðefni m.a. noradrenalín og dópamín sem síðan eru tekin aftur upp í taugafrumuna sem losaði þau. Þessi efni losna stöðugt en sérstaklega við ákveðna iðju, t.d. þegar einstaklingur lýkur verki eða gerir það sem honum finnst skemmtilegt. Meingerðin í ADHD er í þessari verkun og þá sérstaklega í framheilaberki heilans eru þar er heilastöðvar sem stjórna hömlum og einbeitingu. Þá er styrkur boðefnanna í bilinu of lágur og einstaklingurinn leitast við að halda styrknum uppi -- örva boðefnalosun í taugamótabilið -- með iðju sem honum finnst skemmtileg. Úr verður birtingarmynd ADHD eins og eirðarleysi, einbeitingarskortur og hvatvísi.

Meðferð[breyta | breyta frumkóða]

Til einföldunar má líkja lágum styrk taugaboðefna í taugamótabili ADHD við vanvirkan físibelg sem þarf stöðugt að blása til að halda glóð við. Með sterkari blæstri verður físibelgurinn kraftmeiri verka örvandi efni á hliðstæðan hátt. Styrkur boðefnana í bilinu of lágur en með örvandi lyfjameðferð hækkar styrkurinn. Amfetamínskyld lyf eins og amfetamín er notuð í meðferð en það örvar losun noradrenalíns og dópamíns í taugamótabilið. Annað efni er methylphenidate, þekkt sem Concerta eða Rítalín, en það hemur endurupptöku boðefnanna úr taugamótabilinu aftur í frumuna sem losaði þau.[3]


Neðanmálsgreinar[breyta | breyta frumkóða]

  1. Fréttabréf Skyn 2008
  2. „Hljóðbókasafn Íslands“.
  3. Rang, H.P. (2006). Rang & Dale's Pharmacology. Elsevier Churchill Livingstone,.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]


  Þessi heilsugrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.