Fara í innihald

Katarar

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Καθαροί)

Katarar (grísku: καθαροί hinir hreinu) voru sértrúarflokkur upprunninn á 11. og 12. öld á Ítalíu og í Suður-Frakklandi (Languedoc) sem náði mestri útbreiðslu meðal láglendisbænda þar. Kaþólska kirkjan leit ekki á viðhorf þeirra sem kristin, dæmdi þá villutrúarmenn og lét útrýma þeim á 13. og 14. öld. Af nafni þeirra er dregið uppnefni villutrúarmanna í mörgum tungumálum, eins og t.d. Ketzer á þýsku og kætter á dönsku.

Þekktastir Katara voru Albigensar og er sá angi þeirra stundum notaður sem samheiti yfir Katara. Þeir eru kenndir við borgina Albi í Suður-Frakklandi. Albigensar voru, líkt og Katarar, á öndverðum meiði við rómversk-kaþólsku kirkjuna og sakramenti hennar. Þeir kenndu róttæka tvíhyggju anda og efnis, en hið síðarnefnda álitu þeir af hinu illa, og fordæmdu styrjaldir, dauðarefsingar og hjónaband. Innósentíus 3. páfi reyndi að vinna bug á katarismanum með trúboði, en þegar það skilaði litlu predikaði hann krossferð gegn Albigensum. Hún leiddi til grimmilegrar styrjaldar sem hófst árið 1209 og lauk ekki með öllu fyrr en tuttugu árum síðar. Þá hafði Katörum nánast verið útrýmt og hefur þessi styrjöld verið nefnd Krossferðin gegn Albigensum.