Óshyrna
Óshyrna er fjall sem stendur við Ísafjarðardjúp og mynni Bolungarvíkur. Óshyrna er jafnframt ysti hluti Óshlíðar.
Mælingar sýna að stór sprunga er í Óshyrnu sem fer stækkandi. Mögulega getur orðið stórt hrun í Óshyrnu sem gæti valdið flóðbylgju um Ísafjarðardjúp. Sífellt hrynur úr klettavegg Óshyrnu og geta stærri hrunin verið meira en 20 rúmmetrar að stærð. Hins vegar er ekki talin hætta á flóðbylgju ef Óshyrna molnar niður smám saman.[1]
Í Óshyrnu er strandklettur sem nefndur er Þuríður og er kenndur við landnámskonuna Þuríði Sundafylli.