Fara í innihald

Íslandshornið

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Íslandshornið er knattspyrnukeppni sem Knattspyrnufélagið Valur setti á laggirnar árið 1917. Mótið fór fram að haustlagi, en síðast var keppt um titilinn árið 1921.

Knattspyrnufélagið Fram festi kaup á bikar og efndi til fyrsta Íslandsmótsins í knattspyrnu árið 1912. Vegna þessa litu Framarar svo á að mótið væri þeirra eign. Þeir sáu um skipulagninguna og hirtu allan ágóða.

Fótboltafélag Reykjavíkur vildi ekki una þessu og sniðgekk Íslandsmótið árin 1913 og 1914. Að lokum fannst sú lausn á málinu að stofnað var til sérstaks Reykjavíkurmóts, sem Fótboltafélagið hafði umsjón með.

Árið 1917 var Knattspyrnufélagið Valur orðið gildandi íþróttafélag og vildi stofna sitt eigið mót. Egill Jacobsen kaupmaður, gaf félaginu þá verðlaunagrip, útskorið horn. Var ákveðið að nýja knattspyrnukeppnin skyldi nefnast Knattspyrnuhorn Íslands.

Framarar mótmæltu nafninu harðlega, þar sem hætta væri á að því yrði ruglað saman við nafn og verðlaunagrip Íslandsmótsins, knattspyrnubikar Íslands. Þeir neituðu því að taka þátt í mótinu haustið 1917. Í hefndarskyni hótuðu Valsmenn og KR-ingar að taka ekki þátt í Íslandsmótinu 1918. Framarar gáfu þá eftir og lofuðu að taka þátt að ári.

Keppnin um Íslandshornið reyndist þó skammlífari en búist hafði verið við. KR fór með sigur af hólmi tvö fyrstu árin, en því næst unnu Framarar þrisvar í röð og unnu verðlaunagripinn því til eignar árið 1921. Þar sem Knattspyrnufélagið Valur var í mikilli lægð um þær mundir, hafði félagið ekki bolmagn til að festa kaup á nýju horni. Auk þess hafði Knattspyrnuráði Reykjavíkur verið komið á laggirnar. Ráðið hafði yfirumsjón með framkvæmd móta og sá um að hagnaði af miðasölu væri skipt með eðlilegum hætti og því ekki lengur þörf á að hafa jafn mörg mót og knattspyrnufélög.

Sigurvegarar

[breyta | breyta frumkóða]