Émilie du Châtelet

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Émilie du Chatelet)
Émilie du Chatelet við störf

Gabrielle Émilie Le Tonnelier de Breteuil, marquise du Châtelet (17. desember 170610. september 1749) var franskur stærðfræðingur, eðlisfræðingur og höfundur á tíma Upplýsingarinnar. Helsta afrek Émilie du Châtelet er talið vera þýðing hennar og gagnrýni á bók Isaacs Newton, Principia Mathematica.[1] Þýðing hennar, sem gefin var út árið 1759, er ennþá álitin hin almenna franska þýðing á verki Newtons.

Einn elskhuga hennar, Voltaire, lýsti því yfir í bréfi til Friðriks 2. konungs Prússlands að Emilie du Châtelet væri mikill maður sem hefði þann eina galla að vera kona.

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Émilie du Châtelet fæddist í París þann 17. desember 1706. Faðir hennar, Louis Nicholas le Tonnelier de Breteuil, tilheyrði lægri stétt aðalsins. Margt er enn óvitað um menntun Émilie du Châtelet en faðir hennar tók snemma eftir greind dóttur sinnar og fékk fræðimanninn Fontenelle til þess að heimsækja hana þegar hún var tíu ára gömul og tala við hana um stjörnufræði. Móðir Émilie, Gabrielle-Anne de Froulay, ólst upp í klaustri sem þá var álitin helsta menntastofnun sem í boði var fyrir franskar stúlkur og konur.

Það er álitamál hvort að móðir Émilie hafi samþykkt bráðgáfaða dóttur sína eða þá staðreynd að faðir stúlkunnar hvatti meðfædda forvitni Émilie. Önnur merki benda til þess að móðir Émilie hafi ekki aðeins samþykkt menntun hennar, heldur líka hvatt hana til þess að efast um framsettar staðhæfingar. Hvernig sem samband móður Émilie var við dóttur sína verður hvatning foreldranna að teljast óvanaleg fyrir fólk af þeirra tíma og stétt. Þegar Émilie var ung kom faðir hennar því í kring að hún skyldi hljóta þjálfun í skylmingum og hestreiðum og þegar hún óx úr grasi fékk hann kennara til þess að heimsækja hana og fræða. Þegar stúlkan var tólf ára talaði hún reiprennandi latínu, ítölsku, grísku og þýsku. Seinna þýddi Émilie og gaf út þýðingar á grískum verkum, latneskum leikritum og heimspeki. Hún fékk menntun á sviðum stærðfræði, bókmennta og vísinda. Þegar hér var komið við sögu var móðir Émilie orðin afar andvíg menntun dóttur sinnar og framförum. Hún barðist gegn föður stúlkunnar um áframhaldandi menntun Émilie og reyndi eitt sinn að senda hana í klaustur.

Émilie naut þess einnig að dansa, hún söng óperur og var áhugaleikkona. Sem unglingur átti hún lítinn pening fyrir bókakaupum og nýtti sér þá stærðfræðihæfileika sína til þess að þróa árangursríkar aðferðir til fjárhættuspila.

Börn og hjónaband[breyta | breyta frumkóða]

Þann 12. júni 1725 gekk Émilie í hjónaband við markgreifann Florent-Claude du Chastellet-Lomont. Hjónaband þeirra var fyrirfram ákveðið eins og fjöldi hjónabanda innan aðalsins á þeim tíma. Sem brúðargjöf frá föður sínum var eiginmaður hennar var gerður að ríkisstjóra Semur-en-Auxois í Burgundy og þangað fluttu hjónin í lok september 1725. Émilie var þá nítján ára gömul og eiginmaður hennar 34 ára.

Émilie og eiginmaður hennar eignuðust þrjú börn; Françoise Gabriel Pauline (fæddur 30. júní 1726), Louis Marie Florent (fædd 20. nóvember 1727), og Victor-Esprit (fæddur 11. apríl 1733). Yngsti sonur þeirra hjóna dó í lok ágúst 1734, aðeins eins árs gamall. Árið 1749 eignaðist Émilie dótturina Stanislas-Adélaïde du Châtelet, með Jean François de Saint-Lambert. Stúlkan dó tæpum tveimur árum síðar, þann 6. maí 1751.

Áframhald menntunar[breyta | breyta frumkóða]

Þegar Émilie var 26 ára gömul, árið 1733, sneri hún sér aftur að stærðfræðimenntun. Í upphafi kenndi Moreau de Maupertuis, félagi í vísinda akademíunni, Émilie algebru og stærðfræðigreiningu. Þrátt fyrir að stærðfræði hafi ekki verið sérsvið Maupertuis þekkti hann vel til og fékk góða menntun frá Johann Bernoulli. Árið 1735 leitaði Émilie du Châtelet til Alexis Claircaut, sem var þá þekkt undrabarn í stærðfræði, til þess að öðlast frekari stærðfræðimenntun.

Samband við Voltaire[breyta | breyta frumkóða]

Émilie du Châtelet og Voltaire kunna að hafa hist á einni af samkomum föður hennar í æsku. Sjálfur sagðist Voltaire hafa hitt hana árið 1729 þegar hann sneri heim úr útlegð í London. Vinátta þeirri byrjaði þó ekki af alvöru fyrr en í maí 1733 þegar Émilie hafði eignast sitt þriðja barn.

Émilie bauð Voltaire að búa á sveitasetri sínu í norðaustur hluta Frakklands og þau urðu lífstíðarvinir og félagar. Eiginmaður Émilie var umburðarlyndur í garð hennar og Voltaire en hún dvaldist stundum á sveitasetrinu ásamt Voltaire og lagði þar stund á eðlis- og stærðfræði. Einnig gaf hún út fræðigreinar og þýðingar af ýmsum verkum. Af sendibréfum Voltaire til vina sinna og gagnrýni hans og Émilie á verk hvors annars má ráða að þau hafi borið djúpa virðingu hvort fyrir annað.

Síðasta meðganga og andlát[breyta | breyta frumkóða]

Í maí 1748 hófst framhjáhald Émilie du Châtelet og ljóðskáldsins Jean François de Saint-Lambert, og Émilie varð ólétt fjórða sinn. Í sendibréfi treysti hún vini fyrir áhyggjum sínum um meðgönguna hvort hún muni lifa hana af. Þann 3. september 1749 fæddi Émilie stúlkubarn, Stansilas-Adélaïde, en dó af völdum lungnablóðreks tveimur vikum síðar, þá 42 ára gömul. Dóttir hennar lést aðeins um átján mánuðum síðar.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Hver var Émilie du Châtelet og hvert var hennar framlag til vísindanna?“. Vísindavefurinn.

Heimildaskrá[breyta | breyta frumkóða]

  • Bodanis, David (2006). Passionate Minds: The Great Love Affair of the Enlightenment. New York: Crown.
  • Ehman, Esther (1986). Madame du Chatelet. Berg: Leamington Spa.
  • Hamel, Frank (1910). An Eighteenth Century Marquise: A Study of Émilie Du Châtelet and Her Times. London: Stanley Paul and Company.
  • Hagengruber, Ruth (ritstj.) (2011) Emilie du Chatelet between Leibniz and Newton. Springer.
  • Mitford, Nancy (1999) Voltaire in Love. New York: Carroll and Graff.
  • Zinsser, Judith (2006) Dame d'Esprit: A Biography of the Marquise du Chatelet. New York: Viking.
  • Zinsser, Judith og Julie Hayes (ritstj.) (2006) Emelie du Chatelet: Rewriting Enlightenment Philosophy and Science. Oxford: Voltaire Foundation.