Fara í innihald

Ástarsaga

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Ástarsögur frá Harlequin í franskri þýðingu.

Ástarsaga er skáldskapargrein þar sem megináherslan er á ástarsamband sögupersóna. Dæmigerðar ástarsögur segja sögu tveggja elskenda sem laðast hvor að öðrum, og ná saman í lokin þrátt fyrir ýmsar hindranir. Ástarsögur enda þannig oftast vel. Til eru dæmi um ástarsögur meðal fornbókmennta (til dæmis Dafnis og Klói). Seint á Ming-tímabilinu í Kína komu fram svokallaðar Caizi jiaren-bókmenntir sem fjölluðu um ástir milli ungs fræðimanns og konu. Árið 1740 kom út enska skáldsagan Pamela eftir Samuel Richardson þar sem sjónarhorn sögunnar miðast við kvenkyns söguhetju. Jane Austen hafði mikil áhrif á ástarsögur Viktoríutímabilsins. Fjöldaframleiðsla á ástarsögum hófst hjá bresku útgáfunni Mills & Boon á millistríðsárunum og kanadíska bókaútgáfan Harlequin Enterprises hóf að dreifa þeirra bókum í Norður-Ameríku árið 1957.[1]:42 Árið 1971 keypti Harlequin Mills & Boon og bætti um leið sölu- og markaðskerfi sitt með áskriftarsölu.[2]:156

Ástarsögur spanna fjölda bókmenntagreina, eins og sögulegu skáldsöguna, fantasíur, yfirnáttúrulegu skáldsöguna, lesbíubókmenntir og vísindaskáldsögur. Þær koma líka fyrir í leikritum og kvikmyndum. Markaðssetning ástarsagna beinist einkum að konum, en könnun frá 2017 sýndi að 18% kaupenda voru karlmenn.[3] Ástarsögur eru söluhæsti undirflokkur fullorðinsskáldsagna á heimsvísu.[4][5]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Thurston, Carol (1987). The Romance Revolution. Urbana and Chicago: University of Illinois Press. ISBN 0-252-01442-1.
  2. Regis, Pamela (2003). A Natural History of the Romance Novel. Philadelphia, Pennsylvania: University of Pennsylvania Press. ISBN 0-8122-3303-4.
  3. „About the Romance Genre“. www.rwa.org. Sótt 10. mars 2025.
  4. Kamblé, Jayashree; Murphy Selinger, Eric; Teo, Hsu-Ming, ritstjórar (2020). The Routledge Research Companion to Popular Romance Fiction. London: Routledge. ISBN 9781315613468.
  5. King, Rachel (21 ágúst 2021). „The romance novel sales boom continues“. Fortune (enska). Sótt 27 maí 2023.