Skotvopnaeign í Bandaríkjunum

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Eignarhald skotvopna er sú hæsta í heiminum í Bandaríkjunum. Þar ríkir skotvopnamenning sem umlykur hegðun, viðhorf, skoðanir og notkun á skotvopnum almennra borgara. Annar viðaukinn (e. The Second Amendment) í stjórnarskrá Bandaríkjanna verndar rétt almennra borgara til þess að eiga og bera vopn. Skotvopn í Bandaríkjunum eru ýmist notuð til sjálfsvarnar, veiðimennsku og annarra afþreyinga eins og skotfimi. Skotvopnamenning Bandaríkjanna er einstök á meðal þróaðra ríkja hvað varðar fjölda skotvopna í eigu almennra borgara, frjálslegra reglugerða og háa tíðni skotvopna ofbeldis.[1]

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Upphaf skotvopnamenningarinnar[breyta | breyta frumkóða]

Bandaríska veiðimenningin kemur frá þeim tíma þegar Bandaríkin voru landbúnaðar og sjálfsþurftarbúskaps samfélag. Veiðimennska var atvinna fyrir suma, fæða fyrir aðra en þjónaði einnig sem fæling fyrir rándýrum. Til þess að komast lífs af var nauðsynlegt að allir væru færir í notkun skotvopna. Áður en bandaríska sjálfstæðisbaráttan hófst voru hvorki fjárlög né löngun frá stjórnvöldum til að halda uppi skipulögðum her. Bandaríkin lögðu því ábyrgðina á almenna borgara.

Í öðrum viðauka stjórnarskrár Bandaríkjanna stendur:

„Þar sem landvarnarlið með góðu skipulagi er nauðsynlegt fyrir öryggi frjálsra ríkja skal réttur þjóðarinnar til að eiga og bera vopn óskertur látinn.“[2]

Hefðin fyrir sjálfsvörn með eignarhaldi skotvopna helst einnig í hendur við útþenslustefnu Bandaríkjanna vestur á bóginn í upphafi 19. aldar. Landnámsmenn sem settust að í vestur- Bandaríkjunum áttu það til að lenda í átökum við frumbyggja, sem krafðist réttinda til þess að bera skotvopn. Norðurríkin studdu útþenslustefnuna en Suðurríkin börðust gegn henni vegna ótta að ný ríki í vestur-Ameríku myndu ekki leyfa þrælahald. Það myndi leiða af sér að Suðurríkin myndu enda á því að vera í minnihluta Bandaríkjanna og því missa helstu tekjulind sína. Með tilkomu „villta vestursins“ í dægurmenningu Bandaríkjamanna var enn fremur ýtt undir ímynd og mikilvægi skotvopnaeignar. Sömuleiðis ýtti aukin framleiðsla skotvopna vegna þrælastríðsins undir eignarhald og menningu skotvopna.[3]

The National Rifle Association of America (NRA)[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1871 stofnuðu tveir yfirmenn úr her norðurríkjanna, William C. Church og George Wingate, Landssamband byssueigenda (e. The National Rifle Association of America, eða NRA). Ástæðan sem lá þar á bakvið var vegna þess að hermenn þeirra kunnu lítið á notkun skotvopna. Upphaflega var meginmarkmið samtakanna að „stuðla að og hvetja til riffil notkunar á vísindalegum grundvelli.“[4]

Til ársins 1979 var NRA meðlimum heimilt að kaupa afgangsherbirgðir, byssur og skotfæri af Bandaríkjaher á miklum afslætti. Á eftirstríðsárunum þróaðist starfsemi NRA úr náttúruvernd og réttindabaráttu skotveiðimanna í pólitískan þrýstihóp. Í krafti áróðursauglýsinga tókst NRA að draga upp mynd af samfélagsupplausn, með rasískum undirtónum, þar sem réttur borgara til eignarhalds skotvopna væri síðasta vígi frelsis og bandarískra gilda. Samtökin hafa beitt þrýstingi á lög og reglugerðir er varða skotvopnaeign og átti frægasta atvikið sér stað árið 2008 þegar hæstiréttur Bandaríkjanna tók undir með NRA að stjórnarskráin tryggði einstaklingsbundinn rétt til vopnaburðar.[5]

District of Columbia vs Heller[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1975 takmarkaði hæstiréttur Bandaríkjanna réttindi borgara til þess að eiga og bera skotvopn með Firearms Control Regulation Act of 1975 reglugerðinni. Þann 26. júní árið 2008 dæmdi hæstiréttur Bandaríkjanna, með fimm atkvæðum á móti fjórum, að í öðrum viðauka stjórnarskárinnar fælist einstaklingsbundinn réttur til skotvopnaeignar, algerlega óháð þörfum eða hagsmunum ríkisvaldisins, og að allar hömlur á aðgengi almennings að skotvopnum væru árás á þennan rétt.[5]

Aðdragandi dómsmálsins á rætur sínar að rekja til Dick Anthony Heller, lögreglumanns í District of Columbia, vegna þess að alríkislög komu í veg fyrir rétti hans á eignarhaldi skotvopna á heimili sínu. Heller hafði samband við Robert Levy, formann Cato Institute, sem aðstoðaði Heller að lögsækja fylkið. Fengu þeir stuðning frá ríkissaksóknurum margra fylkja Bandaríkjanna, þar á meðal Texas, Alabama, Arkansas, Flórída og Georgíu.[6] Fertugasti og þriðji forseti Bandaríkjanna, George W. Bush, fagnaði niðurstöðu dómsins: „Sem langvarandi talsmaður réttinda skotvopnaeigenda í Bandaríkjunum, fagna ég sögulegri ákvörðun hæstaréttar í dag sem staðfestir það sem hefur alltaf verið skýrt í stjórnarskránni: annar viðaukinn verndar rétt einstaklings til að halda og bera skotvopn.“[7]

Helsta mótstaðan sem Heller varð fyrir var af hálfu John Paul Stevens, lögfræðings og hæstaréttardómara. Stevens hélt því fram að niðurstaða dómsins hafi verið „þvingaður og ómálaefnalegur lestur“ sem felldi langvarandi fordæmi og að dómstóllin hefði „framið dramatískt umbrot í lögunum.“[8] Þá fékk Stevens stuðning frá hæstaréttardómurunum David H. Souter, Stephen G. Bryer og Ruth Bader Ginsburg. Breyer komst að þeirri niðurstöðu að „það er einfaldlega enginn ósnertanlegur stjórnskipulegur réttur sem tryggður er með öðrum viðaukanum til að hafa hlaðnar byssur á heimilum sínum í þéttbýlum þar sem glæpatíðni er há.“[8]

Faraldur skólaskótárása - frá Columbine til fjöldamótmælanna March for Our Lives[breyta | breyta frumkóða]

Þrátt fyrir að tíundi og níundi áratugir síðustu aldar voru hápunktar menningarstríðanna, var umræða um skotvopnaeign takmörkuð. Þetta breyttist allt með skotárásinni í Columbine menntaskólanum í Colorado árið 1999. Tuttugu árum síðar hefur skotvopnaeign orðið eitt helsta átakamál menningarstríðanna.[9]

Árið 1999 skutu tveir árásarmenn tólf nemendur og einn kennara til bana í Columbine menntaskólanum í Colorado.[10] Þar að auki tókst þeim að særa 21 einstaklinga áður en þeir frömdu sjálfsmorð á bókasafni skólans, þar sem þeir höfðu aflífað flesta nemendurna. Skotárásin hóf víðfema umræðu í Bandaríkjunum um skotvopnalöggjöf. Árið 2000 var samþykkt alríkis- og fylkislöggjöf sem krafðist öryggislæsinga á skotvopnum sem og bann á innflutningi á skothylkjum með miklu rúmtaki.

Frá 1999 til 2018 höfðu fleiri en 200 þúsund skólabörn í Bandaríkjunum upplifað skótárás á skólagöngu sinni. Þann 14. febrúar árið 2018 gekk 19 ára karlmaður inn í Majory Stoneman Douglas menntaskólann í Parkland í Flórída með AR-15 hálfsjálfvirkan riffil og drap 17 einstaklinga og særði aðra 17. Í kjölfarið hófst átak að nafni March for Our Lives til stuðnings löggjafar til að koma í veg fyrir byssuofbeldi í Bandaríkjunum.[11]

March for Our Lives urðu fljótt ein stærstu mótmæli í sögu Bandaríkjanna og dreifðust þau einnig víðs vegar annars staðar í heiminn. Þá lýstu margar stærstu stjörnur heimsins yfir stuðningi við átakið, þar á meðal George Clooney, Oprah Winfrey, Justin Bieber og Kanye West. Wayne LaPierre, framkvæmdastjóri NRA, nýtti sér tilefnið í fyrstu ræðu sinni eftir slátrunina í Majory Stoneman Douglas menntaskólanum til að kvarta yfir „sósíalista bylgju“ sem væri að smita ungt fólk. Í kjölfarið lýsti Donald Trump yfir því að LaPierre væri sannur bandarískur föðurlandsvinur. Rick Santorum, fyrrverandi öldungadeildarþingmaður Repúblikanaflokksins og forsetaframbjóðandi, gagnrýndi March for Our Lives og gaf í skyn að nemendur ættu að læra aðferðir til að bregðast við skotárásarmönnum frekar en að biðja þingmenn um að „leysa vandamálið þeirra“; Santorum ráðlagði nemendum að læra endurlífgun frekar en að marsera í Washington.[12]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Max Fisher (2012). „What makes America's gun culture totally unique in the world, in four charts“.
  2. „The Constitution of the United States“. National Archives (enska). 30. október 2015. Sótt 5. desember 2020.
  3. Bellesiles, Michael A. (2002). „Exploring America's Gun Culture“. The William and Mary Quarterly. 59 (1): 241–268. doi:10.2307/3491656. ISSN 0043-5597.
  4. Association, National Rifle. „: About the NRA“. home.nra.org (enska). Sótt 5. desember 2020.
  5. 5,0 5,1 „Hvernig NRA varð að hættulegustu samtökum Bandaríkjanna“. Stundin. Sótt 5. desember 2020.
  6. „Heller 1“. Heller Foundation (bandarísk enska). Afrit af upprunalegu geymt þann 12. nóvember 2020. Sótt 5. desember 2020.
  7. Greenhouse, Linda (27. júní 2008). „Justices Rule for Individual Gun Rights (Published 2008)“. The New York Times (bandarísk enska). ISSN 0362-4331. Sótt 5. desember 2020.
  8. 8,0 8,1 „DISTRICT OF COLUMBIA ET AL. v. HELLER“ (PDF).
  9. Andrew Hartman (2019). A War for the Soul of America: A History of the Culture Wars.
  10. Research, CNN Editorial. „Columbine High School Shootings Fast Facts“. CNN. Sótt 5. desember 2020.
  11. „Faraldur skotárása í Bandaríkjunum síðastliðin 19 ár“. Kjarninn. 21. apríl 2018. Sótt 5. desember 2020.
  12. „Faraldur skotárása í Bandaríkjunum síðastliðin 19 ár“. Kjarninn. 21. apríl 2018. Sótt 5. desember 2020.