Suðurríkjasambandið

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Suðurríkjasambandið
Conferedate States of America
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
Deo Vindice (latína)
Undir Guði, bjargvættinum
Þjóðsöngur:
God Save the South (óopinber)
Höfuðborg Montgomery (til 26. maí 1861)
Richmond (til 3. apríl 1865)
Opinbert tungumál Enska
Stjórnarfar Forsetalýðveldi, sambandslýðveldi

Forseti Jefferson Davis
Varaforseti Alexander H. Stephens
Saga
 • Stofnun 8. febrúar 1861 
 • Upplausn 5. maí 1865 
Flatarmál
 • Samtals

540.857,54 km²
Mannfjöldi
 • Samtals (1860)
 • Þéttleiki byggðar

9.103.332
5/km²
Gjaldmiðill Sambandsdollari

Suðurríkjasambandið eða Sambandsríki Ameríku (enska: Confederate States of America, skammstafað CSA) var ríki í Norður-Ameríku sem var til frá árinu 1861 til 1865. Suðurríkjasambandið var í upphafi myndað af sjö aðskilnaðarsinnuðum suðurfylkjum Bandaríkjanna þar sem þrælahald var við lýði: Suður-Karólínu, Mississippi, Flórída, Alabama, Georgíu, Louisiana og Texas. Efnahagur þessara fylkja var byggður á landbúnaði, sérstaklega bómullarrækt og plantekrukerfi sem reiddi sig á vinnuafl svartra þræla.[1]

Fylkin sjö sögðu sig úr Bandaríkjunum eftir forsetakosningarnar árið 1860 þar sem frambjóðandi Repúblikana, Abraham Lincoln, vann sigur. Lincoln hafði lofað að hefta framgöngu þrælahalds inn á ný landsvæði Bandaríkjanna í vesturhluta Norður-Ameríku og því var þrælaeigendum í suðurríkjunum mjög í nöp við hann. Áður en Lincoln tók við völdum í mars var ný ríkisstjórn Suðurríkjasambandsins stofnuð í febrúar 1861. Sú ríkisstjórn var talin ólögmæt af stjórnvöldum Bandaríkjanna. Þegar þrælastríðið hófst í apríl sögðu fjögur þrælafylki til viðbótar – Virginía, Arkansas, Tennessee og Norður-Karólína – sig einnig úr Bandaríkjunum og gengu til liðs við Suðurríkjasambandið. Suðurríkin samþykktu einnig aðild Missouri og Kentucky, en þau fylki lýstu þó aldrei formlega yfir útgöngu úr Bandaríkjunum né réðu Suðurríkjamenn nokkurn tímann yfir landsvæði þeirra.

Bandaríska alríkisstjórnin viðurkenndi ekki útgöngu Suðurríkjanna úr ríkjasambandinu og taldi Suðurríkjasambandið ólögmætt. Þrælastríðið hófst með árás Suðurríkjamanna á Sumter-virki þann 12. apríl 1861. Ekkert erlent ríki viðurkenndi sjálfstæði Suðurríkjasambandsins formlega[2][3][4] en Bretland og Frakkland leyfðu útsendurum þess þó að versla með vopn og aðrar birgðir. Árið 1865, eftir fjögurra ára átök og um 620.000 manna dauðsfall á vígvellinum[5] gáfust heraflar suðurríkjanna upp og Suðurríkjasambandið var leyst upp. Þá höfðu nærri því allir hermenn suðurríkjanna neyðst til að gefast upp eða verið leystir frá störfum og Suðurríkjasambandið var ofurliði borið.[1] Í endurminningum sínum harmaði forseti aðskilnaðarsinnanna, Jefferson Davis, að Suðurríkjasambandið virtist hafa „horfið“ árið 1865.[6]

Eftir stríðið, á endurbyggingartímabilinu, hlutu aðildarríki Suðurríkjasambandsins formlega sæti sín á Bandaríkjaþingi á ný eftir að þau fullgiltu hvert og eitt þrettánda viðaukann við stjórnarskrá Bandaríkjanna, sem bannaði þrælahald. Á áratugunum eftir stríðið náði mýtan um hinn glataða málstað suðurríkjanna útbreiðslu meðal fyrrverandi hershöfðingja og stjórnmálamanna Suðurríkjasambandsins, en hún gekk út á rómantíska sýn um að sambandið hefði háð hugrakka baráttu fyrir réttlátum málstað í stríðinu. Í kringum aldamótin og á tíma réttindahreyfingarinnar á sjötta og sjöunda áratugnum var aðgerðastefna í anda glataða málstaðarins áberandi sem birtingarmynd bakslags á móti auknum kröfum um kynþáttajafnrétti. Talsmenn glataða málstaðarins vildu tryggja að komandi kynslóðir hvíts fólks í suðurríkjunum héldu áfram að styðja stefnur sem vernduðu yfirburði hvíta mannsins, eins og Jim Crow-lög, með því að reisa minnisvarða til heiðurs herforingjum Suðurríkjasambandsins og hafa áhrif á frásagnir í skólabókum.[7] Suðurríkjamenn hófu aðallega að flagga fánum Suðurríkjasambandsins á ný í kringum forsetakosningarnar 1948, þegar flokkur Dixiekrata notaði þá sem baráttumerki sitt. Á tíma réttindahreyfingarinnar flögguðu stuðningsmenn kynþáttaaðskilnaðarstefnu fánunum á mótmælafundum.[8][9]

Fánar[breyta | breyta frumkóða]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. 1,0 1,1 Arrington, Benjamin P. „Industry and Economy during the Civil War“. National Park Service. Sótt 27. apríl 2017.
  2. „Preventing Diplomatic Recognition of the Confederacy, 1861–65“. U.S. Department of State. Afrit af upprunalegu geymt þann 28. ágúst 2013.
  3. McPherson, James M. (2007). This mighty scourge: perspectives on the Civil War. Oxford University Press US. bls. 65.
  4. Thomas, Emory M. The Confederate Nation, 1861–1865 (1979) pp. 256–257.
  5. „Learn - Civil War Trust“ (PDF). www.civilwar.org. Sótt 27. ágúst 2017.
  6. Davis, Jefferson (1890). Short History of the Confederate States of America. bls. 503. Sótt 10. febrúar 2015.
  7. David W. Blight (2009). Race and Reunion: The Civil War in American Memory. Harvard University Press. bls. 259. ISBN 978-0-674-02209-6.
  8. Strother, Logan; Piston, Spencer; Ogorzalek, Thomas. „Pride or Prejudice? Racial Prejudice, Southern Heritage, and White Support for the Confederate Battle Flag“. academia.edu: 7. Sótt 13. september 2019.
  9. Ogorzalek, Thomas; Piston, Spencer; Strother, Logan (2017). „Pride or Prejudice?: Racial Prejudice, Southern Heritage, and White Support for the Confederate Battle Flag“. Du Bois Review: Social Science Research on Race. 14 (1): 295–323. doi:10.1017/S1742058X17000017. ISSN 1742-058X.