Lauri Kristian Relander

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Lauri Kristian Relander
Relander árið 1928.
Forseti Finnlands
Í embætti
2. mars 1925 – 2. mars 1931
ForsætisráðherraLauri Ingman
Antti Tulenheimo
Kyösti Kallio
Väinö Tanner
Juho Sunila
Oskari Mantere
Pehr Evind Svinhufvud
ForveriKaarlo Juho Ståhlberg
EftirmaðurPehr Evind Svinhufvud
Persónulegar upplýsingar
Fæddur31. maí 1883
Kurkijoki, Stórfurstadæminu Finnlandi, rússneska keisaradæminu (nú Karelíu, Rússlandi)
Látinn9. febrúar 1942 (58 ára) Helsinki, Finnlandi
ÞjóðerniFinnskur
StjórnmálaflokkurBændabandalagið
MakiSigne Relander

Lauri Kristian Relander (31. maí 1883 – 9. febrúar 1942) var finnskur stjórnmálamaður. Hann var annar forseti Finnlands, frá 1925 til 1931. Hann var búfræðingur að mennt og meðlimur í finnska Bændabandalaginu, sem síðar varð finnski Miðflokkurinn.

Relander er gjarnan talinn óþekktasti forseti í sögu Finnlands, þar sem hann var talinn litlaus og vanmáttugur forseti sem rak ekki skýra pólitíska stefnu á tíma mikillar þjóðfélagssundrungar í landinu.[1] Finnland viðhélt einangrunarstefnu í utanríkismálum á kjörtímabili Relanders en hann lagði hins vegar sitt af mörkum við að koma fram í umboði Finnlands erlendis og stofna til nánari samskipta við nágrannaríkin, þar á meðal hin Norðurlöndin.[1] Í forsetatíð sinni krafðist Relander þess að vinstrisinnar samþykktu reglur lýðræðis í Finnlandi, að hægrisinnar sættu sig við stjórnarfyrirkomulag lýðveldisins og að þjóðernissinnar kæmu sér saman um finnska tungumálastefnu.[1]

Búfræðingur og stjórnmálamaður[breyta | breyta frumkóða]

Relander fæddist undir nafninu Lars Kristian en líkt og margir af hans kynslóð tók hann síðar upp finnska mynd nafns síns, Lauri Kristian, þegar hann var ungur. Hann var sonur búfræðings og báðir afar hans voru prestar. Hann fæddist og ólst upp í Kronoborg í Karelíu, sem er ekki lengur hluti af Finnlandi. Hann hóf nám í Háskólanum í Helsinki árið 1901 og útskrifaðist sem búfræðingur árið 1907. Hann tók doktorspróf árið 1914 með lokaritgerð á þýsku um plönturækt. Hann vann sem plöntufræðingur í tilraunabúi frá 1908 til 1917. Hann hafði orð á sér fyrir að vera einn sá fremsti á sínu sviði, en tókst þó ekki að hljóta stöðu við háskólann. Prófessorinn Aimo Cajander, sem síðar varð ráðherra, var einn þeirra sem komu í veg fyrir að Relander yrði ráðinn.

Relander var kjörinn á þing árið 1910 og hann var einn af leiðtogum Bændaflokksins frá árinu 1917. Flokkurinn var í miklum vexti á þessum tíma (fylgi hans var 13% í kosningunum 1917 en 21% árið 1919) og Relander var forseti þingsins frá 1919 til 1920. Árið 1920 var hann útnefndur sýslumaður í Vyborg.

Árið 1925 fóru fram forsetakosningar með óbeinu kjöri 300 kjörmanna. Relander lýsti ekki yfir framboði sem forsetaefni Bændaflokksins fyrr en einum degi áður en kjörmennirnir komu saman. Honum var teflt fram sem forsetaframbjóðanda af meðlimum flokksins í heimahéraði hans þegar aðrir lykilmenn í flokknum (Santeri Alkio, Kyösti Kallio og Eero Pehkonen) höfðu útilokað framboð. Relander náði ekki kjöri fyrr en í þriðju kosningaumferð, með 172 atkvæði gegn 109. Sænski þjóðarflokkurinn studdi Relander þar sem eiginkona hans, Signe Maria Österman, var sænskumælandi.

Forseti[breyta | breyta frumkóða]

Sem forseti var Relander gagnrýndur fyrir óljósa pólitíska stefnu og fyrir að velja lélega ráðgjafa. Staða hans batnaði ekki í ljósi ágreinings Relanders við aðra leiðtoga innan Bændaflokksins, sér í lagi keppinaut hans, Kallio. Í forsetatíð Relanders samþykkti hann fjölda minnihlutastjórna. Þótt Relander hafi sjálfur átt í nokkrum tengslum við hægri-þjóðernissinnuðu Lappóhreyfinguna (hann sagðist síðar sjá eftir því að hafa fundað með og tekið í hönd leiðtoga hreyfingarinnar sem forseti) var honum talið til tekna að hafa lægt öldur milli átakahópa í finnsku samfélagi. Öldur í deilunum á milli tungumálahópanna og á milli hvítliða og rauðliða lægðu nokkuð. Sér í lagi skipti máli að árið 1926 samþykkti Relander fyrstu ríkisstjórn sósíaldemókrata í Finnlandi undir forsæti Väinö Tanner.

Finnland viðhélt á þessum tíma utanríkisstefnu í anda einangrunarstefnu með það að markmiði að undirstrika sjálfstæði og fullveldi hins unga ríkis, sér í lagi gagnvart róstursömu nágrannaríki sínu í austri. Relander fór í ýmsar opinberar heimsóknir sem forseti, til nágrannaríkjanna Eistlands, Svíþjóðar, Lettlands, Danmerkur og Noregs. Utanlandsferðir Relanders leiddu til þess að hann hlaut viðurnefnin Reslander (á sænsku) og Reissu-Lassi (á finnsku). Ferðirnar vöktu jafnframt athygli í ljósi þess að forveri Relanders hafði aldrei farið í opinberar heimsóknir.

Síðari ár[breyta | breyta frumkóða]

Relander lék lykilhlutverk í forsetakosningum Finnlands árið 1931 og stuðlaði að því að flokksbróðir hans og keppinautur, Kyösti Kallio, tapaði í kosningunum á móti Pehr Evind Svinhufvud úr Samstöðuflokknum.

Eftir að Relander hætti afskiptum af stjórnmálum varð hann formaður, Suomen maalaisten paloapuyhdistys, brunatryggingafélags fyrir landbúnað.

Dagbækur Relanders voru birtar á árunum 1967-68. Þau sýndu annars vegar fram á að í forsetatíð hans hafði hann haft skýrari stjórnmálastefnu en samtímamenn hans höfðu talið en hins vegar að hann hafði verið í nokkurri óvissu um hlutverk sitt.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. 1,0 1,1 1,2 Pietiäinen, Jukka-Pekka (7. júní 2000). „Relander, Lauri Kristian (1883–1942)“. Kansallisbiografia (finnska). Suomalaisen Kirjallisuuden Seura. Sótt 12. desember 2019.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]


Fyrirrennari:
Kaarlo Juho Ståhlberg
Forseti Finnlands
(2. mars 19252. mars 1931)
Eftirmaður:
Pehr Evind Svinhufvud