La Lumière de Bornéo

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

La Lumière de Bornéo (Íslenska Bjarminn frá Borneó) er tíunda bókin í ritröðinni Sérstakt ævintýri um Sval... (franska Série Le Spirou de…) þar sem ýmsir listamenn fá að spreyta sig á að semja ævintýri um Sval og Val, sem þó teljast ekki hluti hinnar opinberu ritraðar. Bókin kom út árið 2016. Höfundur og teiknari hennar eru Belgarnir Zidrou og Frank Pé.Bókin hefur enn ekki komið út á íslensku.

Söguþráður[breyta | breyta frumkóða]

Bókin hefst á forsögu í afrískum frumskógi. Dýraljósmyndari með smábarn í för með sér reynir að ná mynd af fágætum hvítum ókapa en er myrtur af veiðiþjófum. Afdrif barnsins eru á huldu.

Blaðamennirnir Svalur og Valur eru staddir á ritstjórnarskrifstofu og fá að vita að grein þeirra um umhverfisspjöll í Palombíu gæti komið illa við auglýsendur blaðsins. Valur kippir sér lítið upp við tíðindin en Svalur bregst ókvæða við og segir upp störfum. Þeir rífast heiftarlega.

Listagallerí í Brüssel fær enn eina nafnlausa sendingu með einstæðum málverkum eftir ókunnan listamann. Þessi dularfullu listaverk vekja aðdáun en jafnframt áhuga auðkýfinga. Meðan á þessu stendur uppgötva Sveppagreifinn og samverkamenn hans dularfullan sveppagróður sem breiðist út um heiminn og virðist óviðráðanlegur.

Svalur nýtur lífsins í atvinnuleysinu. Hann rekur augun í auglýsingaspjald frá fjölleikahúsi, þar sem Nói (úr sögunni um Apana hans Nóa) er dýratemjari. Svalur heldur til fundar við þennan gamla vin sinn, sem jafnframt er að taka á móti Fauvette, uppreisnargjarnri táningsdóttur sinni. Samband þeirra feðgina er stirt, því þótt Nói sé snillingur í að umgangast dýr er hann afleitur í mannlegum samskiptum. Úr verður að stúlkan dvelst heima hjá Sval og Val. Erfið samskiptin við föðurinn og áföll í fortíðinni hvíla þungt á henni. Hún reynist vera barnið sem nærri var drepið af veiðiþjófunum í sögubyrjun.

Svalur og Fauvette fylgjast með magnaðri fjölleikahússýningu Nóa og dýranna hans, þar á meðal gamals órangútan-apa sem reynist afbragðsmálari og höfundur hinna dularfullu málverka. Hinn ófyrirleitni stjórnandi fjölleikahússins hyggst selja verk hans hæstbjóðanda. Tveir milljónamæringar bítast um verkin. Annar rænir apanum, sem reynir að stinga af en hrapar til bana á flóttanum.

Svalur og Valur ná aftur fullum sáttum, eftir að sá síðarnefndi segir einnig upp á blaðinu eftir að ritstjórinn neitar að birta frétt hans um sveppagróðurinn dularfulla sem ógnar öllu lífi. Svalur, Valur og Fauvette uppgötva að hin heillandi málverk órangútans áttu í raun að mynda eitt heildstætt verk. Þau raða þeim upp og Fauvette, sem hafði náð sérstökum tengslum við apann, nær að ljúka verkinu. Útkoman lætur engan sem það sér ósnortinn og augu mannkyns opnast fyrir því að menn og dýr þurfi að lifa í sátt og samlyndi í náttúrunni. Vitundarvakningin hefur þæt óvæntu afleiðingar að sveppagróðurinn skuggalegi hverfur eins og dögg fyrir sólu. Sögunni lýkur á að Fauvette og Nói ná fullum sáttum og halda á braut með fullan bíl af dýrum.

Fróðleiksmolar[breyta | breyta frumkóða]

  • Teiknivinna bókarinnar er afar metnaðarfull, einkum vandaðar dýramyndir. Sagan þykir því ein sú fallegasta í ritröðinni.
  • Hinn kunni vikapiltsbúning Svals kemur við sögu á þann hátt að ferðataska Fauvette glatast snemma í sögunni og hún neyðist því til að fá lánuð föt af Sval.
  • Annar auðkýfinganna sem eltist við órangútan-apann er Ibn Maksúd, olíufurstinn sem komið hefur við sögu í nokkrum Svals og Vals-ævintýrum.
  • Hin uppreisnargjarna Fauvette les myndasögu, sem reynist vera úr bókaflokknum Skvísur (Les Nombrils).