List

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Leikari í Bian Lian-óperu í Kína.

List er það þegar sköpunargáfunni er gefinn laus taumurinn og myndir, tónverk, styttur eða aðrir hlutir eru búnir til, í þeim megintilgangi að varpa ljósi á fegurð og mikilfengleika heimsins, að tjá tilfinningar eða skilning listamannsins, eða að aðrir fái notið verksins. Orðið list eða listaverk getur einnig átt við um afrakstur slíkrar sköpunar.

Erfitt er að skilgreina list á altækan hátt, þótt margir hafi sterkar skoðanir á því hvað er list og hvað ekki. Ótal mælikvarðar eru til um það hvaða skilyrði hlutur eða verknaður þarf að uppfylla til að teljast list.[1] Sumir telja að list sé það sem eykur skilning okkar á umheiminum umfram einfaldan hlutlægum skilning. Oft er talað um að verknaður sé list ef afraksturinn er fagurfræðilegur.[2] Samkvæmt þessari skilgreiningu hefur list fylgt mannkyninu frá örófi alda, eins og hellamálverk sýna.

En þótt hægt sé að skilgreina list á mjög víðtækan máta eru margir sem vilja undanskilja ýmsa iðju sem þó miðar að fagurfræðilegum afrakstri, svo sem handverk og iðnhönnun. Samkvæmt þessari skilgreiningu, sem er nýrri af nálinni, er orðið list lítið meira en stytting á hugtakinu sköpunarlist eða hámenningarleg list. Með öðrum orðum er mest áhersla lögð á nýnæmi listarinnar og að listamaðurinn ögri áhorfandanum, svo upplifun listarinnar verður virkur atburður, frekar en að listin sé í bakgrunni og geri umhverfið fallegra. Til dæmis geta handprjónuð föt sem unnin eru samkvæmt uppskrift aldrei orðið list í þessum skilningi orðsins, sama hversu vel þau eru unnin.

Til viðbótar við nýnæmið er stundum gerð krafa um að list sé unnin í göfugum tilgangi. Dæmi um það er þegar tónverk eða kvikmyndir sem framleiddar eru í þeim megintilgangi að afla tekna fyrir framleiðandann eru undanskilin frá skilgreiningunni á list, og kölluð iðnaður (sbr. kvikmyndaiðnaður og tónlistariðnaður).

Þegar list er skilgreind á þröngan máta, líkt og rætt er um hér að ofan, er sjaldgæft að menn séu sammála um hvað er list og hvað ekki. Því hafa ýmsir haldið því fram að slíkar skilgreiningar hafi meira að gera með smekk heldur en hlutlæga aðgreiningu.

Listgreinar[breyta | breyta frumkóða]

Joseph Beuys fremur gjörning árið 1978.

Til er mikill fjöldi listgreina sem eru flokkaðar ýmist eftir miðli, tilgangi, búnaði, staðsetningu og fleiri þáttum. Ólík flokkunarkerfi byggjast svo á ólíkum viðhorfum til listar og eru menningarbundin. Í Kína til forna var til dæmis talað um þrjár listgreinar: skrautskrift, málun og ljóðlist. Eftir 17. öld varð algengt að greina nytjalist og skreytilist frá fagurlist á vesturlöndum, og um leið alþýðulist frá hámenningarlist. Síðan þá hefur verið deilt um hvort tilteknar listgreinar eigi að teljast með sem slíkar eða ekki. Dæmi um þetta eru greinar eins og ljósmyndun, kvikmyndagerð, myndasögur, fatahönnun og tölvuleikir.

Samkvæmt vestrænni hefð er algengt að flokka listgreinar í þrjá eða fjóra yfirflokka:

Listgreinar sem hafa verið stundaðar um langt skeið byggjast á tilteknum hefðum, skólum og fjármögnunarleiðum, sem greina þær frá öðrum listgreinum. Þær geta líka haft ólíka lagalega stöðu, til dæmis gagnvart hugverkarétti. Margar tegundir listsköpunar hafa orðið til á mörkum ólíkra listgreina. Dæmi um það eru myndljóð, gjörningalist, innsetningar, kvikmyndagerð, ballett og ópera.

Aðrar tegundir flokkunar eru til dæmis greinarmunurinn á hefðbundinni list og nútímalist;[3] munurinn á óhlutbundinni list og hlutbundinni list, eða munurinn á konseptlist og efnislegri list.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Hvernig er hægt að útskýra hvað list er?“. Vísindavefurinn.
  2. Evelyn Hatcher, ritstjóri (1999). Art as Culture: An Introduction to the Anthropology of Art. Praeger.
  3. Matthías Johannessen (1973, 1. apríl). „Upphaf nútímalistar“. Lesbók Morgunblaðsins. 48 (13): 1–8.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]