Fara í innihald

Kennaramenntun

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Kennaramenntun er stefna og starfsemi sem miðar að því að þjálfa kennara til starfa. Kennaramenntun er oft skipt í grunnmenntun og símenntun (endurmenntun) starfandi kennara.

Kennaramenntun á Íslandi

[breyta | breyta frumkóða]

Margir barnaskólar voru stofnaðir í þéttbýli á síðari hluta 19. aldar. Þegar skólum fjölgaði þá jókst þörf fyrir kennara. Árið 1887 var lagt fyrir Alþingi frumvarp um menntun alþýðu á Íslandi. Það var í 15 köflum og fjallaði einn kafli þess um kennaramenntun. Frumvarpið var fellt. Hinn 23. febrúar 1889 var Hið íslenska kennarafélag stofnað en á fyrsta aðalfundi þess var flutt tillaga um að skora á Alþingi að gera alþýðukennurum kleift að mennta sig áður en þeir tækjust á hendur barnakennslu. Árið 1895 kaus Alþingi nefnd, sem samdi frumvarp um barnakennslu og undirbúningsmenntun barnakennara. Í frumvarpinu var lagt til að stofna kennaraskóla í Flensborg í Hafnarfirði þar sem yrðu tveir fastir kennarar. Frumvarpið náði ekki fram að ganga, það var endurflutt 1897 og 1899 en ávallt fellt. Nýtt frumvarp um kennaraskóla var lagt fram árið 1903 og var þá gert ráð fyrir að kennaraskóli yrði í Reykjavík. Það var endurflutt 1905 en fellt og flutt aftur 1907 og var þá samþykkt.

Flensborgarskóli

[breyta | breyta frumkóða]

Kennaramenntun á Íslandi hófst í Flensborgarskóla. Veturinn 1891 flutti Jóhannes Sigfússon cand. theol. kennari við skólann og síðar yfirkennari við Menntaskólann í Reykjavík einn fyrirlestur á viku í Flensborgarskóla um uppeldi og kennslu. Þessir fyrirlestrar voru fyrir utan hinn hefðbundna skólatíma. Eftir að landshöfðingi gaf út reglugerð um kennarafræðslu þann 1. febrúar 1892, þar sem gert var ráð fyrir kennarafræðslu á stuttum námskeiðum ár hvert, hófst kennsla í námskeiðsformi við Flensborgarskóla 1892 og stóð til 1895 en féll þá niður vegna ónógrar þátttöku. Nemendur voru ekki margir í þessu námi. Fyrsta árið voru þeir aðeins fimm. Árið 1896 var námskeiðinu breytt í eins vetrar skóla er starfaði sem þriðji bekkur við Flensborgarskóla. Hélst sá háttur þangað til Kennaraskóli Íslands var stofnaður. Kennslugreinar í kennaranáminu í Flensborg voru kristinfræði, uppeldisfræði, íslenska, danska, landafræði, náttúrufræði, tölvísi, teikning og kennsluæfingar. Kennaraefni hlýddu á kennslu í barnaskólanum í Flensborg fyrri part vetrar en seinni part vetrar kenndu þau sjálf 4-5 stundir á viku. Algengasta kennsluformið í Flensborg var fyrirlestrar og kennaranemar þurftu að skila mörgum ritgerðum yfir veturinn t.d. þurftu þau að skila 20 ritgerðum um uppeldisfræðilegt efni og 30 ritgerðum í íslensku. Brautskráðir kennarar frá kennaradeildinni í Flensborg voru alls 121, 111 piltar og 10 stúlkur.

Kennaraskóli Íslands

[breyta | breyta frumkóða]

Kennaraskóli Íslands tók til starfa haustið 1908. Þar var þriggja ára nám frá 1. október til 31. mars ár hvert. Kennslugreinar voru íslenska, danska, saga, landafræði, náttúrufræði, reikningur, rúmfræði, skrift, teikning, handavinna, leikfimi, söngur, kristinfræði, uppeldis- og kennslufræði og kennsluæfingar. Við skólann voru skipaðir 3 fastir kennarar. Kennarar skólans áttu auk grunnnámsins að hafa á hendi framhaldskennslunámskeið fyrir lýðskólakennara. Skólatíminn var svo lengdur í 7 mánuði árið 1924 og enska tekin upp sem námsgrein. Með lögum frá 14. apríl 1943 varð kennaranám fjórir vetur í stað þriggja áður og með lögum um kennaranám frá 14. apríl 1947 var skólatíminn lengdur í 8 mánuði og mælt fyrir um að stofnaður yrði æfingaskóli. Árið 1963 voru samþykkt lög sem heimiluðu starfrækslu sex deilda við kennaraskólann: almennrar kennaradeildar, stúdentadeildar, menntadeildar, framhaldsdeildar, undirbúningsdeildar sérnáms og handavinnudeildar. Kennaraskólinn starfaði fyrst við Laufásveg en framkvæmdir hófust 1958 við skólahús í Stakkahlíð og árið 1962 hófst bókleg kennsla í 1. áfanga nýbyggingar. Um langt skeið var kennsla í verklegum greinum áfram í gamla skólahúsinu við Laufásveg.

Kennaraháskóli Íslands

[breyta | breyta frumkóða]

Kennaraskólanum var breytt í Kennaraháskóla Íslands árið 1971 og náminu breytt í þriggja ára háskólanám þar sem inntökuskilyrði voru stúdentspróf eða sambærilegt próf. Bókavörður var fastráðinn að bókasafni Kennaraháskólans árið 1979.

Háskóli Íslands

[breyta | breyta frumkóða]

Þrjár háskóladeildir við Háskóla Íslands höfðu menntun kennara að markmiði en það voru heimspekideild, félagsvísindadeild og verkfræðideild. Fyrstu árin var eingöngu ein námsbraut í heimspekideild auk forspjallvísinda, það var nám til meistaraprófs í íslensku. Árið 1934 urðu námsbrautir tvær, kennarapróf í íslenskum fræðum og meistarapróf í íslensku. Nám til B.A. prófs hófst í verkfræðideild árið 1966 en markmið þess var einkum að mennta kennara til kennslu í raungreinum í gagnfræðaskólum. Sama ár hófst einnig nám til B.A. prófs í félagsvísindum. Félagsvísindadeild var stofnuð 25. maí 1976 en meðal kennslugreina var uppeldis- og kennslufræði.

Aðrir skólar

[breyta | breyta frumkóða]

Aðrir skólar sem menntað hafa kennara eru Húsmæðrakennaraskóli Íslands sem stofnaður var með reglugerð 11. maí 1942 og Íþróttaskólinn á Laugarvatni sem falið var að mennta íþróttakennara með lögum frá 15. maí 1942. Kennaradeildir hafa einnig verið við Handíða- og myndlistaskólann í Reykjavík og Tónlistarskóli Reykjavíkur hefur útskrifað tónlistakennara. Kennaradeild er starfrækt við Háskólann á Akureyri. Háskólinn í Reykjavík býður upp á B.Ed. nám í íþrótta- og kennslufræði og stærðfræði og M.Ed. í lýðheilsu- og kennslufræðum og stærðfræði.

  • Lýður Björnsson (1981). Úr sögu kennaramenntunar á Íslandi.