Fara í innihald

Júlíus Havsteen (amtmaður)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

(Jóhannes) Júlíus Havsteen (f. 13. ágúst 1839 á Akureyri, d. 3. maí 1915 í Reykjavík) var íslenskur embættismaður og stjórnmálamaður. Júlíus Havsteen var þingmaður og amtmaður.

Fjölskylda

[breyta | breyta frumkóða]

Foreldrar Júlíusar voru Jóhann Godtfred Havsteen kaupmaður á Akureyri og bróðir Péturs Havsteen amtmanns og alþingismanns og kona hans Sophie Jacobine Havsteen, f. Thyrrestrup húsmóðir. Pétur Havsteen, föðurbróðir Júlíusar breytti ættarnafni sínu í Hafstein, en hann var faðir Hannesar Hafstein ráðherra.

Arið 1880 kvæntist Júlíus danskri konu, Johanne Margrethe, dóttur Otto Westengaards ofursta í danska landhernum, og eignuðust þau tvö börn, Helgu (f. 1880), sem giftist Henry Gad, höfuðsmanni í sjóher Dana, og Ottó Jacob (f. 1884), heildsala í Reykjavík.

Menntun og embættisstörf

[breyta | breyta frumkóða]

Júlíus lauk stúdentsprófi frá Latínuskólanum 1859 og hélt þá til Danmerkur þar sem hann nam lögfræði við Hafnarháskóla. Hann lauk embættisprófi árið 1866. Fyrst eftir útskrift starfaði Júlíus sem aðstoðarmaður og fulltrúi hjá amtmanninum í Holbæk á Sjálandi, en árið 1870 var hann ráðinn aðstoðarmaður í íslensku stjórnardeildinni í Kaupmannahöfn þar sem hann starfaði til 1881. Þá var hann settur amtmaður i Norður- og Austuramti. Árið 1884 var hann skipaður í embættið og gegndi því til 1894 þegar hann var skipaður í embætti amtmanns í Suður- og vesturamts. Júlíus hélt því embætti til 1904 er amtmannaembættin voru lögð niður. Eftir það var Júlíus forseti amtráðs suðuramtsins til 1907 er amtsráðin voru lögð niður.

Júlíus gegndi að auki ýmsum öðrum trúnaðarstörfum, þar á meðal endurskoðandi Íslandsbanka í Reykjavík frá stofnun hans 1904 til æviloka. Gæslustjóri Söfnunarsjóðs frá 1905 til æviloka.

Þingseta og afskipti af stjórnmálum

[breyta | breyta frumkóða]

Auk embættisstarfa hafði Júlíus töluverð afskipti af stjórnmálum. Meðan hann var amtmaður Norður- og austuramtsins og var búsettur á Akureyri sat hann í bæjarstjórn Akureyrar. Þar var hann bæjarfulltrúi á Akureyri 1885—1893. Eftir að hann var skipaður Amtmaður Suður- og vesturamtsins fluttist Júlíus til Reykjavíkur.

Júlíus sat að auki lengi á þingi. Hann var konungkjörinn þingmaður 1887 – 1891, og aftur 1899 til dauðadags, 1915. Júlíus starfaði með Heimastjórnarflokknum og Sambandsflokknum. Hann var varaforseti sameinaðs þings 1901 – 1903, forseti efri deildar 1905 – 1907 og 1912. Árin 1911 var hann annar varaforseti efri deildar og árin 1913 og 1914 varaforseti. Forseti efri deildar milli þinga 1913 – 1914.

Í stjórnmálaskoðunum þótti Júlíus mjög íhaldssamur, afskaplega reglufastur og fyrirmynd annarra embættismanna. Þá var hann mjög vel að sér í lögfræði og leituðu menn iðulega til hans um ráð um lögfræðileg álitaefni. Í minningarorðum um Júlíus sem birtust í Morgunblaðinu var honum lýst þannig:

Þar er í valinn hniginn sannur aðalsmaður í orðsins göfugasta skilningi. „Grand seigneur“ upp á gamla vísu. Heiðursmaður af heiðurs-kyni. Maður, sem ekki mátti vamm sitt vita. ...
Á þingi var hann með starfshæfustu mönnum; hann var samvinnuþýður við alla. Hann var víst flestum lagamönnum fróðari um öll Canselí bréf, plaköt og konungsúrskurði og stjórnarúrskurði. Hann var þar eins og lifandi handbók og kom sér það oft vel á þingi.[1]

Júlíus hlaut fjölda heiðursmerkja, 1887 var hann gerður að riddara að Dannebrog, 1894 að Dannebrogsmanni, 1902 var hann gerður Kommandör 2. fl. af Dannebrog og 1904 Kommandör 1. fl. Að auki hlaut hann franska orðu, Officer de l'Instruction publique. Eins og það var orðað í Ísafold. „Heiðursmerki hafði hann alla leið upp i kommandörkross af 1. stigi, auk frakkneskrar orðu.“[2]

Er hann lest af influensu var Júlíus aldursforseti Alþingis.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Minningargrein um Júlíus Havsteen, Morgunblaðið 5. maí 1914, bls. 2.
  2. Minningargrein um Júlíus Havsteen, Ísafold 7. maí 1915, bls. 1.