Stefán Þórarinsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Stefán Þórarinsson (24. ágúst 175412. mars 1823) var íslenskur lögmaður og síðar amtmaður, konferensráð og riddari af Dannebrog. Hann var ásamt bræðrum sínum ættfaðir Thorarensen-ættar.

Mynd:Endurgerð innsiglis Norðaustur Amts 1786.png
Rafræn endurgerð á innsigli fyrir Stefán Þórarinsson Amtmann Norðaustur Amts 1786 sem dvaldi að Möðruvöllum í Hörgárdal

Stefán var sonur Þórarins Jónssonar sýslumanns á Grund í Eyjafirði, sem var sonur Jóns Jónssonar sýslumanns í Grenivík og var Stefán því bróðursonur Málfríðar konu Sveins Sölvasonar lögmanns. Kona Þórarins og móðir Stefáns var Sigríður Stefánsdóttir, systir Ólafs stiftamtmanns. Þórarinn dó 1767, þegar Stefán var 13 ára, og fór hann þá til Ólafs móðurbróður síns en var í skóla í Skálholti hjá Hannesi Finnssyni. Móðir Stefáns giftist aftur Jóni Jakobssyni sýslumanni á Espihóli og var Jón Espólín sýslumaður og sagnaritari hálfbróðir Stefáns.

Stefán fór utan 1770 og naut kennslu hjá Hannesi, sem þá var kominn til Kaupmannahafnar, og ári síðar var hann tekinn í Kaupmannahafnarháskóla. Hann lauk embættisprófi í lögfræði 1777 og fór að vinna í rentukammerinu. 3. febrúar 1779 var hann skipaður varalögmaður en fór þó ekki strax til Íslands, heldur ferðaðist um Noreg til að kynna sér bústjórn og jarðyrkju. Hann tók svo við varalögmannsembættinu 1780. Sveinn lögmaður andaðist 1782 og tók Stefán þá við lögmannsembættinu norðan og vestan.

Hann var fyrst á Innrahólmi hjá Ólafi móðurbróður sínum en 1783 fékk hann skipun í amtmannsembættið norðan og austan og því fylgdi Möðruvallaklaustursumboð og bústaður á Möðruvöllum í Hörgárdal. Hann fékk lausn frá lögmannsembættinu 1789 en raunar gegndi Vigfús bróðir hans lögmannsstörfum á þinginu 1786 og 1787 og Magnús Stephensen frændi hans 1788.

Stefán var amtmaður í norður- og austurumdæminu til dauðadags 1823 og þótti duglegur og framkvæmdasamur. „Hann hefir haft einna mesta gáfu til allra framkvæmda og ráðdeildar í atvinnu og búskapar efnum af öllum þeim, er voru honum samtíða á Íslandi, og hefir Norðurland borið menjar eftir stjórn hans fram til þessa dags,“ segir Jón Sigurðsson í Lögsögumannatali og lögréttumanna.

Kona Stefáns var Ragnheiður, dóttir Vigfúsar Schevings sýslumanns Skagfirðinga, en móðir hennar var Anna Stefánsdóttir, móðursystir Stefán, og þau hjónin því systrabörn.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]


Fyrirrennari:
Sveinn Sölvason
Lögmaður norðan og vestan
(17831789)
Eftirmaður:
Magnús Stephensen