Guðlaugur Þorvaldsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Guðlaugur Þorvaldsson (13. október 1924 - 25. mars 1996) var íslenskur viðskiptafræðingur, rektor Háskóla Íslands og ríkissáttasemjari.

Guðlaugur fæddist í Grindavík og voru foreldrar hans Þorvaldur Klemensson útvegsbóndi og Stefanía Margrét Tómasdóttir. Eiginkona Guðlaugs var Kristín Hólmfríður Kristinsdóttir ritari og eignuðust þau fjóra syni.

Nám og störf[breyta | breyta frumkóða]

Guðlaugur lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1944 og kandítatsprófi í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands árið 1950. Hann starfaði sem kennari við Núpsskóla í Dýrafirði veturinn 1944-1945, var blaðamaður við vikublaðið Fálkann frá 1946-1958, stundakennari í hagfræði við Verzlunarskóla Íslands árin 1950-1961, fulltrúi á Hagstofu Íslands 1950-1956 og deildarstjóri þar frá 1956-1966. Hann hóf störf sem stundakennari við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands árið 1956 en var settur prófessor við deildina veturinn 1960-1961. Hann var ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu 1966-1967 en var skipaður prófessor í viðskiptafræði við Háskóla Íslands árið 1967. Hann var rektor Háskóla Íslands frá 1973-1979 og ríkissáttasemjari frá 1979-1994.[1]

Forsetaframboð[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1980 var Guðlaugur í framboði til embættis forseta Íslands ásamt Albert Guðmundssyni, Pétri J. Thorsteinsson og Vigdísi Finnbogadóttur. Baráttan stóð einkum á milli Guðlaugs og Vigdísar en úrslit kosninganna urðu á þann veg að Vigdís var kjörin forseti með 33,8% atkvæða en Guðlaugur varð næstur með 32,3% atkvæða.

Viðurkenningar[breyta | breyta frumkóða]

Guðlaugur var sæmdur riddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu árið 1975 og Stórriddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu árið 1979.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Minningargreinar: Guðlaugur Þorvaldsson“, Morgunblaðið, 2. apríl 1996 (skoðað 13. júní 2019)