Diego Simeone

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Diego Simeone
Upplýsingar
Fullt nafn Diego Pablo Simeone
Fæðingardagur 28. apríl 1970 (1970-04-28) (53 ára)
Fæðingarstaður    Buenos Aires, Argentína
Hæð 1,80 m
Leikstaða Miðherji
Meistaraflokksferill1
Ár Lið Leikir (mörk)
1987-1990 Vélez Sársfield 76 (14)
1990–1992 AC Pisa 1909 55 (6)
1992-1994 Sevilla FC 64 (12)
1994-1997 Atletico Madrid 98 (21)
1997-1999 Inter Milan 57 (11)
1999-2003 Lazio 90 (15)
2003-2005 Atletico Madrid 36 (2)
2005-2006 Racing Club 37 (3)
Landsliðsferill
2004–2005
2008
2005-
Argentína U-20
Argentína U-20
Argentína
4 (1)
6 (1)
106 (11)
Þjálfaraferill
2006
2006–2007
2007–2008
2009–2010
2011
2011
2011-
Racing Club
Estudiantes
River Plate
San Lorenzo
Calcio Catania
Racing Club
Atletico Madrid

1 Leikir með meistaraflokkum og mörk
talið í aðaldeild liðsins.

Diego Pablo Simeone González eða El Cholo (f. 28. apríl 1970) er argentínskur knattspyrnustjóri og fyrrum leikmaður sem stýrir spænska stórliðinu Atlético Madrid.

Knattspyrnuferill[breyta | breyta frumkóða]

Félagslið[breyta | breyta frumkóða]

Simeone fékk viðurnefni sitt, Cholo, á táningsaldri. Ástæðan var sú að einum af þjálfurum hans þótti leikstíll hins unga leikmanns minna á gamla kempu úr liði Boca Juniors sem gekk undir sama nafni. Simeone þótti alla tíð einstakur vinnuþjarkur á leikvelli. Hann var miðjumaður sem vann vel til baka og þótti illviðráðanlegur í loftinu en gat jafnframt verið sókndjarfur. Hann var leiðtogi sem sameinaði bæði styrk og sköpunarmátt. Helstu fyrirmyndir hans voru hinn brasilíski Falcão og Þjóðverjinn Lothar Matthäus.

Hann lék með Vélez Sarsfield í heimalandinu frá 1987-90, en var seldur til ítalska liðsins Pisa aðeins tvítugur að aldri. Eftir tvö ár í herbúðum Pisa lá leiðin til Sevilla þar sem Simeone lék frá 1992-94 við góðar orðstír.

Frá Sevilla gekk Simeone í raðir Atlético Madrid og lék þar næstu þrjú árin. Á miðjuárinu, 1995-96, var hann í meistaraliði Atlético, sem varð Spánarmeistari í fyrsta sinn í nærri tvo áratugi. Aflaði Simeone sér mikilla vinsælda og virðingar meðal stuðningsmanna félagsins sem kom sér síðar að góðum notum.

Árið 1997 lá leiðin aftur til Ítalíu, nánar tiltekið til Inter Milan sem þá hafði á að skipa brasilíska framherjanum Ronaldo. Saman unnu þeir Evrópukeppni félagsliða vorið 1998. Um þessar mundir var Lazio frá Rómarborg í örum vexti undir stjórn hins sænska þjálfara Sven-Göran Eriksson. Liðið var borið uppi af argentínskum leikmönnum, þeim Néstor Sensini, Matías Almeyda, Hernán Crespo og Juan Sebastián Verón. Hafði Lazio farið nærri því að vinna ítalska meistaratitilinn vorið 1999. Þá um sumarið gekk Simeone til liðs við félagið og í kjölfarið varð Lazio Ítalíumeistari í fyrsta sinn árið 2000.

Frá 2003-05 var Simeone á ný leikmaður Atlético Madrid og lék svo í eitt ár í heimalandinu með Racing Club áður en hann lagði skóna á hilluna.

Landslið[breyta | breyta frumkóða]

Diego Simeone lék 106 leiki fyrir argentínska landsliðið á árunum 1988-2002 og skoraði í þeim ellefu mörk. Hann var í sigurliðum Argentínu á Copa América 1991 og 1993. Þá hlaut hann silfurverðlaunin á Ólympíuleikunum 1996, sem einn af þremur leikmönnum eldri en 23 ára sem tefla mátti fram.

Hann kom við sögu í úrslitakeppni þriggja heimsmeistaramóta: HM 1994, HM 1998 og HM 2002. Í keppninni í Frakklandi árið 1998 vöktu útistöður hans og David Beckham mikla athygli, þar sem sá síðarnefndi fékk rautt spjald fyrir að sparka í átt til Simeone í 16-liða úrslitum. Þótti Argentínumaðurinn ýkja atvikið úr hömlu og bættist það á langan lista umdeildra atvika í sögu viðureigna Argentínu og Englands.

Þjálfaraferill[breyta | breyta frumkóða]

Í Argentínu og Ítalíu[breyta | breyta frumkóða]

Simeone tók við knattspyrnustjórastarfinu hjá Racing Club snemma árs 2006 en var sagt upp störfum fáeinum mánuðum síðar. Hann tók skömmu síðar við Estudiantes de La Plata og leiddi félagið til sigurs í argentínsku deildinni sama ár, í fyrsta sinn í 23 ár. Í kjölfarið var hann útnefndur þjálfari ársins af knattpsyrnutímaritinu Olé. Í árslok 2007 tók Simeone við stjórn River Plate af Daniel Passarella. Liðið varð Argentínumeistari 2008 en slakt gengi í Suður-Ameríkukeppninni og taphrina heima fyrir varð til þess að hann sagði upp störfum síðla árs 2008. Þessu næst spreytti Simeone sig sem stjóri San Lorenzo en hrökklaðist fljótlega úr starfi eftir hrinu ósigra vorið 2010.

Í janúar 2011 tók Simeone við stjórn Calcio Catania frá Sikiley sem var í bullandi fallbaráttu í ítölsku úrvalsdeildinni. Catania hélt sér uppi en Simeone kaus að endurnýja ekki samning sinn heldur tók hann á ný við stjórn Racing Club í Argentínu.

Hjá Atlético Madrid[breyta | breyta frumkóða]

Á þorláksmessu árið 2011 var Diego Simeone kynntur til sögunnar sem nýr knattpsyrnustjóri hjá sínu gamla liði, Atlético Madrid. Var það almennt talinn valtasti stjórastóllinn á Spáni, þar sem félagið hafði haft fjórtán stjóra frá aldamótum. Þegar á fyrstu leiktíð vann hann sigur í Evrópudeildinni eftir úrslitaviðureign gegn Athletic Bilbao.

Á sínu fyrsta heila tímabili við stjórnvölinn hjá Atlético hampaði Simeone Evrópska ofurbikarnum eftir sigur á Chelsea F.C.. Félagið varð jafnframt bikarmeistari og náði öðru sæti í deildinni, á eftir Barcelona sem var besti árangur félagsins í sautján ár.

Atlético hóf leiktíðina 2013-14 með látum og vann átta fyrstu leikina í deildinni, þar á meðal var 0:1 sigur gegn Real Madrid á Santiago Bernabéu, sá fyrsti í fjórtan ár. Barcelona og Atlético bitust um titilinn allt til loka. Skallamark Diego Godín í lokaleiknum á Camp Nou tryggði Atlético jafntefli og þar með meistaratitilinn í fyrsta sinn frá 1996. Litlu mátti muna að Atlético bætti sigri í Meistaradeildinni í sarpinn, en Real Madrid jafnaði í uppbótartíma í úrslitaleiknum og sigraði að lokum í framlengingu.

Ekki tókst að fylgja eftir spænska meistaratitlinum næstu árin, en vorið 2016 komst Atlético á ný í úrslitaleik Meistaradeildarinnar. Aftur voru mótherjarnir Real Madrid sem að þessu sinni unnu í vítaspyrnukeppni.

Vorið 2018 vann Simeone Evrópudeildina í annað sinn með því að leggja Olympique de Marseille í úrslitum. Þar með var Simeone orðinn sigursælasti þjálfari í sögu Atlético Madrid. Honum tókst að vinna deildina aftur tímabilið 2020-2021 þegar Atletico þurfti sigur í lokaumferðinni en Real vann einnig sinn leik. Simeone er jafnframt sá þjálfari í gjörvallri sögu félagsins sem stýrt hefur því lengst samfellt.

Titlar[breyta | breyta frumkóða]

Sem leikmaður[breyta | breyta frumkóða]

Atlético Madrid

Inter Milan

  • UEFA Cup: 1997–98

Lazio

  • Serie A: 1999–2000
  • Coppa Italia: 1999–2000
  • Supercoppa Italiana: 2000
  • UEFA Super Cup: 1999

Argentína

  • Copa América: 1991, 1993
  • King Fahd Cup: 1992
  • Silfur á Ólympíuleikum: 1996

Sem þjálfari[breyta | breyta frumkóða]

Estudiantes La Plata

  • Primera División: 2006 Torneo Apertura

River Plate

  • Primera División: 2008 Torneo Clausura

Atlético Madrid

  • La Liga: 2013–14, 2020-2021
  • Copa del Rey: 2012–13
  • Supercopa de España: 2014
  • Meistaradeild: Annað sæti: 2013–14, 2015–16
  • UEFA Europa League: 2011–12, 2017–18
  • UEFA Super Cup: 2012, 2018

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]