Tilberi
Tilberi er kvikindi í íslenskri þjóðtrú, einskonar sending, sem menn (aðallega konur) sköpuðu með hjálp galdra og fjölkynngi úr mannsrifi, og geymdu á sér berum, oft vafið í gráan flóka. Tilberarnir voru notaðir til að laumast á næstu bæi og sjúga kýr og ær annars fólks og flytja heim mjólkina í hús tilberamóður. Sumstaður á landinu er tilberinn einnig nefndur snakkur, en það orð er þó oftast haft um annað kvikindi, þó það eigi sér líka hefð sem samheiti.
Tilberinn átti svipaðan uppruna og snakkurinn. Menn náðu sér í mannsrif í helgri mold, geymdu á beru brjósti sér, og er farið var til altaris spýttu menn helguðu messuvíni í barm sér á rifið, eigi sjáldnar en þrisvar uns það lifnaði. Tilberinn var mjólangur sem rif og því ólíkur snakki í lögun, enda ætlaður aðallega til að sjúga málnytupening nágranna og færa heim í sér að húsbónda sinna. Gubbaði hann þá venjulega inn um búrglugga í ílát. Þegar hann kom, aðvaraði hann húsfreyju með þessum orðum: „Fullur beli, mamma“. Svaraði hún þá: „Láttu þá lossa, sonur,“ eða: „Gubbaðu í strokkinn, strákur.“ Sjaldan skorti þá húsfreyju smjör, en ærið þótti það glypjulegt og varð að froðu, ef gert var yfir því eða í það krossmark. Sumir segja að orðið hafi að „karmolum“ sem eins og hreyttust út um allt. Smjör þetta nefndist tilberasmjör. Þær konur, sem héldu þessa þjóna, tóku sér blóð innan læris, vöfðu tilberana um mitti sér og létu þá sjúga sárið. Þær voru nefndar tilberamæður og voru jafnan ærið ótútlegar að sjá.
Tilberar lögðust yfir malir búpenings og sugu með báðum endum. Urðu þeir stundum offullir og spúðu úr báðum endum á leiðinni heim. Sögðust gamlir menn hafa þekkt eftir þá skrámurnar víða á grjóti og móþúfum.