Fara í innihald

Yves Chaland

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Yves Chaland (3. apríl 1957 - 18. júlí 1990), var franskur myndasöguhöfundur. Á skömmum ferli hafði hann talsverð áhrif á þróun Marcinelle-skólans í fransk/belgísku myndasöguhefðinni.

Ferill[breyta | breyta frumkóða]

Chaland fæddist í Lyon og ólst upp við að lesa bækur eftir belgísku myndasögumeistarana. Fyrstu sögur Chaland birtust á prenti þegar hann var aðeins sautján ára gamall. Fljótlega tók hann að skapa sér óvenjulegan persónulegan stíl, sem vísaði sterkt til myndasagna sjötta áratugarins. Fékk hann fljótlega heitið atómstíll.

Chaland skapaði nokkra sagnaflokka, þar á meðal um persónuna Freddy Lombard, ungan ofurhuga sem svipaði nokkuð til Tinna í útliti. Sögur hans nutu nokkurra vinsælda meðal myndasögulesenda, en höfðu þó enn meiri áhrif á samtímamenn hans úr röðum listamanna. Hann fórst í bílslysi árið 1990, aðeins 33 ára að aldri og skildi þá eftir sig mikið af óútgefnu efni, sem síðar var búið til útgáfu.

Svalur og Valur[breyta | breyta frumkóða]

Jean-Claude Fournier lét skyndilega af störfum sem aðalhöfundur sagnaflokksins um Sval og Val árið 1979. Í kjölfarið myndaðist óvissutímabil, þar sem engum einum aðila var falin umsjón með þessum kunnu myndasögum. Tvö teymi teiknara og höfunda, með þá Nic og Cauvin annars vegar en Tome og Janry hins vegar, sömdu Svals og Vals-ævintýri sem birtust í myndasögublaðinu Sval. Chaland var einnig falið að spreyta sig á persónunni ástsælu.

Á árinu 1982 birtust framhaldssögur um þá Sval og Val í myndasögublaðinu, hálfsíða í hverju tölublaði. Minntu þær í útliti og frásagnarmáta mjög á upphafsár persónanna og teiknistíl þeirra Jijé og Franquin á fyrri hluta ferils síns. Sagan þótti of sérkennileg og féll lesendum ekki nægilega vel í geð og var birtingu hennar hætt í miðjum klíðum. Rúm tuttugu ár áttu eftir að líða uns Dupuis-útgáfufélagið safnaði þeim saman á bók.

Með tímanum hefur nálgun Chalands á Sval og Val öðlast aukna viðurkenningu. Dæmi um það má finna í bókaflokknum Sérstakt ævintýri um Sval..., þar sem ýmsir höfundar spreyta sig á að teikna sjálfstæðar Svals og Vals-sögur. Má þar víða finna vísanir í sögur Chalands.