Wikipediaspjall:Fréttatilkynning 1 milljón greina
Útlit
Moi:
Varðandi „lagfæra verk hver annars“, þá talaði ég við íslenskukennarann minn (er í framhaldsskóla) og aðspurður sagði hann „lagfæra verk hvers annars“, auk þess er móðir mín sammála því. Orðið hvers er hér í eignarfalli, sbr. „lagfæra verk Guðmundar“ ekki „lagfæra verk Guðmundur“ (Guðmundur, Guðmund, Guðmundi, Guðmundar). -Svavar L 18:18, 14 sep 2004 (UTC)
- Þetta finnst mér nú samt rangt, en ég byggi það bara á eigin máltilfinningu, sem vissulega gæti verið röng í þessu tilviki, þó að ég sé miklu vanari hinu. Ég er nefnilega ekki sérmenntaður í íslensku þó að ég eigi að teljast vel menntaður. Alveg má horfa á álit íslenskukennara (sérstaklega ef hann er menntaður í íslensku, en það eru þeir bara ekki allir), en ég sé ekki að móðir þín komi þessu við, nema hún sé ein slík eða þaðan af menntaðri. Hitt er þó alveg öruggt að við myndum báðir segja að „hver lagfæri(r) annars verk“, ekki satt? Ég ráðlegg að leita til Íslenskrar málstöðvar ef svona smáágreiningur kemur upp og gildir þá að sjálfsögðu þeirra álit, þeir eru einmitt til þess að veita ráð í svona tilvikum. Sími þar er 525 4443 og 552 8530. Mestu varðar að hvaðeina sem við birtum sé ekki bara satt og rétt, heldur einnig á sem bestu og réttustu máli og mætti það sjónarmið reyndar vera talsvert hærra skrifað hér á is.Wikipedia en það er í reynd. Gerumst nú bara vopnabræður og berjumst fyrir bættri málnotkun á is.Wikipedia :-) Kannaðu málið hjá ÍM, ég skora á þig! Kveðja, --Moi 19:01, 14 sep 2004 (UTC)
- Vissulega eigum við að vera vopnabræður. En annars hringdi ég í bæði símanúmerin og fékk bara símsvara, þeir eru greinilega ekki við um kvöldmatarleytið ;). Ég áætla samt að senda greinina á morgun og þurfum við helst svar við þessum ágreiningi fyrir þann tíma. En annars er móðir mín næstum því 50 ára og hefur langa reynslu við notkun íslenskrar tungu, ef svo má að orði komast. En annars get ég alltaf hringt í ömmu mína, hún hefur alltaf lagt áherslu á rétta íslensku en ég veit ekki hve alvarlega þú tekur áliti hennar þar sem hún er ekkert sérlega vel menntuð. Fletti annars upp á íslenskukennaranum og ferilskránni, samkvæmt henni hefur hann B.A. próf í íslensku og almennri bókmenntafræði frá Háskóla Íslands (http://flensborg.is/stalid/stamenn/simon.htm). Held að það sé hægt að treysta áliti hans varðandi þetta mál.
- Gott mál Svavar, ég sé að þér er raunverulega annt um það að málfarið sé sem best á tilkynningunni og það finnst mér frábært. Ég er alveg tilbúinn að bakka í málinu ef þig langar að breyta þessu, því að mér skilst að greinin skrifist hvort sem er á þig og þá er náttúrlega eðlilegt að þú ráðir. Ég vil ekki vanmeta reynslu móður þinnar af íslensku, en læt þess þó getið að mín reynsla af málinu er greinilega lengri en hennar. Reyndu samt aftur við ÍM í fyrramálið ef það er hægt. Svo skulum við halda merkinu hátt á loft og berjast fyrir sem bestu málfari á is.Wikipedia.org eða Wikipedia.is ef það verður að veruleika. Með bestu kveðju, --213.190.107.34 20:26, 14 sep 2004 (UTC) Æ, var ég svo ekki loggaður inn! --Moi 20:35, 14 sep 2004 (UTC)
- Ég hafði ekki beint samband við Íslenska málstöð en ég notaði málfarsbankann þeirra og sá að orðið hver beygist ekki með orðinni annar, heldur með geranda. (http://www.ismal.hi.is/malfar/ og leita að „hver“). Mér sýnist að þetta ætti að vera „hver annars“ eins og þú nefndir. Ætli þetta sé svona algengur misskilningur eða máltilfinningin hjá fólki almennt segir „hvers annars“?. - Svavar L 11:09, 18 sep 2004 (UTC)
- Ég held að þetta sé bara vegna þess að fólk áttar sig ekki á því að hver er frumlag (gerandi) en annar er andlag (sem eitthvað er gert við) í orðasambandinu, sem um ræðir. Látum nú bara lokið. Kveðja, --Moi 17:57, 18 sep 2004 (UTC)
Byrja umræðu um Wikipedia:Fréttatilkynning 1 milljón greina
Spjallsíður er þar sem maður spjallar um hvernig efnið á Wikipedia getur verið sem best. Þú getur notað þessa síðu til að byrja umræðu við aðra um hvernig má bæta Wikipedia:Fréttatilkynning 1 milljón greina.