Vanderbilt-háskóli
Vanderbilt-háskóli (e. Vanderbilt University) er einkarekinn rannsóknarháskóli í Nashville í Tennessee í Bandaríkjunum, stofnaður árið 1873. Skólinn er nefndur í höfuðið á Corneliusi Vanderbilt, sem veitti eina milljón Bandaríkjadala til stofnunar skólans. Vanderbilt, sem hafði sjálfur aldrei komið til suðurríkjanna, taldi að gjöfin og skólinn með starfsemi sinni hjálpuðu til við að græða þau sár sem borgarastyrjöldin bandaríska hafði valdið.
Við upphaf 21. aldar stunda um 12.000 nemendur frá öllum 50 ríkjum Bandaríkjanna og yfir 90 löndum um allan heim nám við Vanderbilt-háskóla. Tæplega 3400 háskólakennarar starfa við skólann. Háskólasjóður skólans er um 2,9 milljarðar Bandaríkjadala. Vanderbilt-háskóli er gjarnan talinn meðal 20 bestu háskóla landsins.