Valtýr Pétursson
Valtýr Pétursson (27. mars 1919 – 15. maí 1988) var íslenskur listmálari og einn af frumkvöðlum módernisma og abstraktlistar í íslenskri myndlist. Einnig var hann myndlistargagnrýnandi og tók mikinn þátt í félagsstarfi myndlistarmanna.
Fjölskylda og æska
[breyta | breyta frumkóða]Valtýr var einkasonur hjónanna Þórgunnar Árnadóttur og Péturs Einarssonar, kennara á Grenivík. Hann missti snemma báða foreldra sína, en ólst upp í Reykjavík hjá móðursystur sinni Gunnhildi Árnadóttur og Ólafi Guðmundssyni, útgerðarmanni. 16 ára gamall réði hann sig til sjós og var í siglingum næstu 9 ár auk ýmissa annarra umsvifa, m.a. var hann með útgerð vörubíla við flugvallargerð Breta 1941. Valtýr byrjaði snemma að teikna og mála, lærði tréskurð hjá Geir Þormar á Akureyri kornungur og fór í teikniskóla Björns Björnssonar í Reykjavík 1934-1936. Varðveitt eru verk eftir hann ársett 1934 –1937, olíumálverk og einnig margar skipateikningar. Engin verk eftir Valtý frá árunum 1939 – 1944 eru varðveitt svo að vitað sé. Hann hafði löngun til að verða rithöfundur og hafa geymst sögur og sögubrot frá þessum árum.
Ferill
[breyta | breyta frumkóða]Árið 1944 hélt Valtýr til Providence í viðskiptanám að áeggjan fóstra síns. Hann hóf einnig listnám hjá Hyman Bloom í Boston, tók að aðhyllast dulspeki og teiknaði furðuverur og tók síðan þá ákvörðun að verða listamaður eftir heimsókn í Museum of Modern Art í New York. 1945 – 1949 málaði Valtýr af miklum krafti, m.a handskreytti hann ljóðabækur Steins Steinars með súrrealistiskum myndum, en fór svo að aðhyllast abstrakt list sífellt meira. Valtýr, Kjartan Guðjónsson og Jóhannes Jóhannesson fengu Þorvald Skúlason, Nínu Tryggvadóttur, Gunnlaug Scheving, Snorra Arinbjarnar og Tove og Sigurjón Ólafsson til að taka þátt í Septembersýningu, þeirri fyrstu af fjórum alls, 1947, 1948, 1951 og 1952. Sýningarnar voru mjög umdeildar og voru gerð hróp að listamönnunum á götum úti. Vorið 1949 settist Valtýr í Accademia di Belle Arti í Flórens, Ítalíu. Um haustið hélt hann til Parísar að skoða söfn og sýningar í höfuðborg listanna. Haustið 1950 hélt Valtýr sína fyrstu einkasýningu í Galleri Gizard í París. Valtýr var í París til áramóta 1950/1951, en heimsótti borgina oft á lífsleiðinni. Á Septembersýningunni 1951 sýndi Valtýr fyrstu strangflatarmynd sem sýnd var á Íslandi. Árið 1956 lærði Valtýr mósaíkgerð hjá Gino Severini í París og í framhaldi var hann fenginn til að gera veggskreytingar úr mósaík í nýbyggingu Kennaraskólans við Stakkahlíð. Um ævina hélt Valtýr 29 einkasýningar og tók þátt í rúmlega 100 samsýningum á löngum ferli sínum. Málverk Valtýs breyttust mjög eftir því sem tíminn leið, en segja má að sjómennska æskuáranna birtist í flestum liststefnum sem hann aðhylltist, í dulspeki, í geometriu, í tassisma og í fígúratífu málverki. Valtýr var myndlistargagnrýnandi Morgunblaðsins frá 1952 til dauðadags og liggja eftir hann um 900 greinar sem birtust í blaðinu. Hann var gjaldkeri Félags íslenskra myndlistarmanna frá 1951 – 1969 og formaður 1969 – 1973.[1]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Valtýr Pétursson, Listasafn Íslands, Reykjavík, september 2016, ritstjóri Dagný Heiðdal, bls 1-128.