Fara í innihald

Vínsteinn

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Vínsteinn.

Vínsteinn er vínsúrt kalín sem finnst í safa ýmissa jurta. Hann var áður fyrr meðal annars notaður sem litunarefni. [1]. Hann hefur efnasambandið KC4H5O6. Þegar talað er um vínstein í matargerð og bakstri er átt við hvítt duft sem er unnið úr gerjuðum vínberjasafa.

Vínsteinn er oft annað aðalefnið í lyftidufti, á móti matarsóda (natroni), og kallast slíkt lyftiduft vínsteinslyftiduft. Hann er þó ekki lyftiefni í sjálfu sér og ekki hægt að hafa hann til þeirra nota einan sér, en áhrif frá sýrunni í honum, ásamt raka úr deiginu, valda því að efnahvörf verða í matarsódanum þannig að koltvísýringsbólur myndast og stækka, sem aftur verður til þess að deigið lyftir sér. Þar sem þetta ferli hefst um leið og vökva er blandað saman við þurrefnin má deigið ekki bíða neitt, heldur þarf að setja það fljótt í ofninn svo að loftið sígi ekki úr því aftur.

Vínstein er stundum settur saman við eggjahvítur þegar þær eru þeyttar í marens til að gera hann stöðugri og endingarbetri og hann er einnig stundum látinn út í sykurlög þegar síróp er soðið til að koma í veg fyrir kristallamyndun. Hann er líka notaður töluvert í matvælaframleiðslu.

Ef ögn af ediki eða sítrónusafa er hrært saman við vínstein verður til þykkt krem sem má nota til að fægja málma, svo sem kopar og messing.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Almennar litunarreglur, að lita ullardúka og band; grein í 19. júní 1919