Ungmennafélagið Leiknir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Ungmennafélagið Leiknir Fáskrúðsfirði er íþróttafélag í þorpinu Fáskrúðsfirði sem er hluti sveitarfélagsins Fjarðabyggðar. Félagið var stofnað á jóladag árið 1940. Fyrir sumarið 2022 sameinuðust karlalið Leiknis og Knattspyrnufélags Fjarðabyggðar í Knattspyrnufélagi Austurlands.

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Leiknir Fáskrúðsfirði hóf þátttöku í þriðju deild Íslandsmótsins árið 1968 og lék þar óslitið til 1981. Þegar stofnað var til fjórðu deildar sumarið 1982 færðist Leiknir niður í hana. Sumarið 1984 varð liðið meistari í fjórðu deild og færðist þannig upp um deild í fyrsta sinn í sögunni. Eftir tveggja ára dvöl í þriðju efstu deild féll Leiknir á ný og dvaldi óslitið í fjórðu efstu deild frá 1987-2014, þar á meðal um skeið sem hluti af KBS í samstarfi vuð Stöðfirðinga og Breiðdalsvík.

Árin 2014 og 2015 fór Leiknir upp um tvær deildir og keppti í næstefstu deild í fyrsta sinn sumarið 2016, en tvö önnur Austfjarðalið léku í deildinni það ár. Leiknir kom mjög á óvart með því að halda sér uppi og endaði í 10. sæti sem er besti árangurinn í sögu félagsins. Sumarið 2017 féllu Leiknismenn niður um deild en höfðu þar stutta viðkomu því liðið varð meistari í þriðju efstu deild sumarið 2019.

Leiknir hefur aldrei komist í 16-liða úrslit í bikarkeppni KSÍ.