Fara í innihald

Torfi H. Tulinius

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Torfi H. Tulinius er prófessor í íslenskum miðaldafræðum við Háskóla Íslands og stýrir alþjóðlegu meistaranámi í þeirri grein, M.A. Medieval Icelandic Studies og Nordic Master Program in Viking and Medieval Norse Studies. Í rannsóknum sínum hefur hann fyrst og fremst fengist við íslenskar miðaldabókmenntir, einkum fornaldarsögur Norðurlanda og Íslendingasögur. Við túlkun sagnanna hefur Torfi leitast við að beita þverfræðilegri nálgun (frásagnarfræði, táknfræði, viðtökufræði, félagsfræði, sagnfræði og sálgreiningu) í því skyni að auka skilning okkar á því hvaða hlutverki þessar sögur gegndu í miðaldasamfélaginu og hvaða merkingu þær höfðu fyrir höfunda og viðtakendur þeirra.

Torfi er höfundur þriggja bóka um fornsögurnar en hefur auk þess skrifað fjölda ritgerða, tímaritsgreina og bókarkafla um þær sem birst hafa bæði hérlendis og erlendis. Í fyrstubók sinni, The Matter of the North. The Rise of LIterary Fiction in Thirteenth Century Iceland (2002), tvinnar hann saman nákvæmri greiningu á nokkrum fornaldarsögum með aðferðum bókmenntafræðinnar og sagnfræðilegum skilningi á gildum og viðhorfum Íslendinga á 13. öld til að varpa ljósi á tilurð fornaldarsagna og Íslendingasagna sem bókmenntagreina.

Í næstu bók, Skáldinu í skriftinni. Snorri Sturluson og Egils saga (2004), setur Torfi fram nákvæma greiningu á byggingu og merkingarsköpun í Egils sögu og setur hana í samhengi við lýsingu á íslensku samfélagi á 13. öld sem byggir á félagsfræði franska félagsvísindamannsins Pierre Bourdieu. Í kjölfarið setur hann fram kenningu um tilurð sögunnar í ranni Snorra Sturlusonar á miðri Sturlungaöld. Árið 2014 kom út í ensk þýðing Victoriu Cribb á endurbættri gerð bókarinnar (The Enigma og Egilll. The Saga, the Viking Poet, and Snorri Sturluson).

Þriðja bók Torfa kom út á frönsku 2023 og heitir Les sagas islandaises: enjeux et perspectives (Éditions du Collège de France, Paris).

Undanfarin ár hefur Torfi haldið áfram að birta greinar um fornsögurnar. Rannsóknir hans hafa beinst að hugmyndum um höfðingsskap á miðöldum og hvernig þær birtast bæði í samtíðarsögum og Íslendingasögum. Á síðustu misserum hefur hann beint sjónum sínum að tengslum ofbeldis og sagnaritunar á 13. öld og stuðst þar við vaxandi svið áfallafræða.

Auk rannsókna sinna á íslenskum miðaldabókmenntum hefur Torfi einnig fengist við franskar bókmenntir auk þess sem eftir hann liggja margvíslegar þýðingar og bera þar hæst þýðingar hans á Sverris sögu, sem kom út á frönsku árið 2010 og á Egils sögu sem kom út á sama tungumáli 2021.

Torfi hefur verið gestakennari við háskólana í Montpellier í Frakklandi, Osló í Noregi og Sydney í Ástralíu, auk þess sem hann var gestafræðimaður við École des hautes études en sciences sociales í París. Árið 2021 var hann gestafyrirlesari í fjórar vikur við Collège de France í boði William Marx, prófessors. Rannsóknir Torfa hafa verið styrktar af Rannís og Rannsóknarsjóði Háskóla Íslands. Torfi hefur verið heiðraður tvívegis af frönskum stjórnvöldum fyrir framlag sitt til franskra fræða með veitingu orðanna „Palmes académiques“ og „Chevalier des arts et lettres“.

Torfi er fæddur 1958, lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð 1976, B.Ed.-prófi frá Kennaraháskóla Íslands 1982, B.A.-prófi í frönsku og íslensku frá Háskóla Íslands 1983, meistaraprófi í frönskum bókmenntum frá Université Lyon II 1985 og doktorsprófi frá norrænudeild Sorbonne-háskóla í París 1992. Hann var settur lektor í frönsku við Háskóla Íslands 1989, skipaður dósent 1992, prófessor í frönsku og miðaldabókmenntum 2002 en hefur verið prófessor í íslenskum miðaldafræðum frá 2009. Frá 2018 til 2022 var hann forseti Íslensku- og menningardeildar Háskóla Íslands.