Fara í innihald

Tölvumiðlun

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Tölvumiðlun var íslenskt hugbúnaðarfyrirtæki sem var stofnað árið 1985. Hjá fyrirtækinu störfuðu um 30 manns.

Advania keypti fyritækið árið 2015.

Einn af hornsteinum Tölvumiðlunar var samningur við Tölvuþjónustu sveitarfélaga um samræmt bókhaldskerfi fyrir sveitarfélög til notkunar á einkatölvum. Frá því haustið 1985 hafa yfir fjölmörg sveitarfélög og fyrirtæki notað SFS fjárhagskerfið.

Launakerfi

Árið 1987 keypti Tölvumiðlun fyrirtækið Huga hf. og viðskiptasambönd þess. Helsta söluvara Huga hf. var launakerfi og þjónustusamningar því tengdir. Þróun launakerfisins skilaði mjög góðum árangri og árið 1990 gerði Tölvumiðlun samning við 24 sjúkrahús um nýja gerð launakerfis sem síðar varð að útbreiddasta launakerfi landsins, H-laun.

Heilbrigðislausnir

Á árinu 1988 setti Tölvumiðlun upp upplýsingakerfi fyrir sjúkrahús ásamt skrifstofukerfi fyrir ritara. Í framhaldi af uppsetningu upplýsingakerfa sjúkrahúsa hóf Tölvumiðlun markaðssetningu á hinum ýmsu hugbúnaðarkerfum fyrir sjúkrahús.

Kerfin voru kynnt undir heitinu HUS (Heildar Upplýsingakerfi Sjúkrahúsa). Um var að ræða göngudeildarkerfi fyrir hinar ýmsu deildir sjúkrahúsa ásamt leguskráningarkerfi. Tölvumiðlun hefur átt mikið og gott samstarf við Sjúkrahús Reykjavíkur, nú Landsspítalann Háskólasjúkrahús, sem hefur allt frá 1995 notað LEGU legudeildarkerfi og HUS-RIS bókunarkerfi fyrir röntgendeildir.

Þjónusta tengd heilbrigðisgeiranum var færð að mestu yfir í annað félag, eMR hugbúnað og sameinað starfsemi Gagnalindar hf. og heilbrigðissviðs Hugvits hf. Árið 2003 var eMR selt TM Software.

Sérlausnir

Skömmu eftir 1990 hófst samvinna við Fasteignamat Ríkisins þar sem ýmis kerfi voru unnin í samvinnu við tölvudeild fasteignamatsins. Þessi kerfi halda utan um allt fasteignamat, skráningu á þeim, lýsingu í smáatriðum á húsnæði ásamt ýmsum uppflettimöguleikum fyrir fasteignasala og aðra notendur þessara gagna. Ýmist með sérkerfum eða í gegnum internetið.

Í framhaldi af þessari vinnu hefur Tölvumiðlun unnið þinglýsingarkerfi fasteigna í samvinnu við Dómsmálaráðuneytið. Þetta kerfi heldur utan um allar þinglýsingar og skráningar á fasteignum og lausafé. Kerfið hefur verið sett upp hjá sýslumönnum um land allt.

Eignarhald

Eigendur Tölvumiðlunar voru Brynjar Gunnlaugsson, Daði Friðriksson og Gissur Ísleifsson, sem allir höfðu starfað hjá félaginu um árabil.