Fara í innihald

Landakotsspítali

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá St. Jósefsspítali)
Kapellan í Landakoti, notuð sem sjúkrastofa (um 1900)

Landakotsspítali eða Sankti Jósepsspítali í Landakoti er sjúkrahús í Reykjavík. Hann tók formlega til starfa árið 1902 og var aðalspítali Íslands og kennsluspítali Læknaskólans þangað til Landsspítalinn tók til starfa árið 1930.

Í lok nítjándu aldar var krafan um sjúkrahús í Reykjavík mjög hávær. Þörfin var mikil. Bæjarstjórn Reykjavíkur var tilbúin að leggja til fé en Alþingi ekki. Árið 1901 kom tilboð frá St. Jósefssystrum í Landakoti um að reisa og reka fullkomið sjúkrahús í Reykjavík. Alþingi tók því tilboði fegins hendi en vildi þó hvorki veita kaþólikkum styrk eða lán til verkefnisins. Spítalinn var reistur 1902 fyrir söfnunarfé frá Evrópu. Margir höfðu horn í síðu systranna vegna trúar þeirra. Spítalinn var aðalspítali landsins þar til spítalinn á Hringbraut var reistur um 1930.

Lokið var að byggja nýjan spítala við Landakot árið 1963 og var gamli spítalinn rifinn. Árið 1976 keypti íslenska ríkið spítalann. Þar eru nú öldrunarlækningar.

Kórónaveirufaraldurinn 2019–2021 náði innan veggja spítalans og um mánaðarmót október/nóvember 2020 kom upp hópsýking á spítalanum sem olli því að 13 manns létust. Húsnæði spítalans var gagnrýnt og þar var bent á skort á einbýlum, sérbaðherbergjum, loftræstingu og einnig að hólfaskiptingu var ábótavant en húsnæðið bauð vart upp á það.